Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/23885
Verkefni þetta fjallar um göngur í náttúrunni og sjálfbæra ferðaþjónustu. Markmið þess er að leita leiða til að þetta tvennt geti þrifist saman og styrkst af samvinnunni. Rýnt er bæði í gönguna sjálfa, eðli hennar og einkenni og einnig náttúrugönguna sem birtingarmynd náttúrutengdrar og sjálfbærrar ferðaþjónustu. Jöklaleiðin sem við upphaf verkefnisins var aðeins hugmynd að gönguleið er liggja ætti meðfram suðurbrún Vatnajökuls í Austur-Skaftafellssýslu var notuð sem dæmi (e. case study).
Verkefnið byggist á tveimur rannsóknum; rýnihóparannsókn og viðtalsrannsókn. Rýnihóparnir voru tveir og samanstóðu af heimamönnum annars vegar og sölufólki erlendis hins vegar og var sú rannsókn gerð við upphaf verkefnisins er gönguleiðin var einungis á hugmyndastigi. Viðtalsrannsóknin var gerð síðar, er vinna við tvo leggi leiðarinnar hafði hafist. Rætt var við þrjá hópa og samanstóð sá fyrsti af erlendu ferðafólki sem var ekki að ganga í Íslandsferð sinni, annar af erlendu ferðafólki sem var að ganga og sá þriðji af íslenskum fjallaleiðsögumönnum og ferðaskipuleggjendum.
Fræðileg umfjöllun leiðir í ljós að sú gönguferðaþjónusta sem hér er til umfjöllunar fellur undir náttúrutengda ferðaþjónustu, sem bæði er hæg ævintýraferðamennska, jarðminjaferðamennska, vistvæn og með nokkrum einkennum náttúrulífsferðamennsku. Áframhaldandi uppbygging hennar þarf að hafa sjálfbærni að skilyrðislausu markmiði.
Rannsóknirnar leita svara við því hvernig best sé að hanna og haga uppbyggingu Jöklaleiðarinnar. Niðurstöður þeirra varpa ljósi á ýmis atriði sem hinn breiði hópur viðmælenda telur mikilvæga og sem nýtast mega við uppbyggingu leiðarinnar og einnig við markaðssetningu hennar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Endanlegt og loka.pdf | 1,97 MB | Opinn | Skoða/Opna |