Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/23915
Í íslenskum rétti gildir meginreglan um samningsfrelsið. Í mörgum samningum er að finna ákvæði um afleiðingar vanefnda. Samningsbundin vanefndaúrræði eru hentug leið til þess að ná fram meiri fyrirsjáanleika í samningum. Ef samið er um vanefndaúrræði er einnig hægt að koma fram vanefndaúrræðum sem annars væru ekki heimil samkvæmt almennum reglum. Þegar samið er frá almennum reglum um vanefndir er annaðhvort verið að víkja frá þeim til að rýmka rétt kröfuhafa til að beita vanefndaúrræðum eða takmarka réttinn. Meginumfjöllunarefni ritgerðinnar eru samningar um úrbætur, sem er ein tegund samningsákvæða af þessu tagi. Í tilefni af galla hefur kaupandi ákveðin lögbundin úrræði til að ná fram rétti sínum. Almennar reglur sem heimila bæði kröfuhafa og skuldara að krefjast úrbóta setja ákveðnar takmarkanir á réttinn. Slík samningsákvæði geta þjónað hagsmunum bæði kaupanda og seljanda. Viðskiptin standa og kaupandi fær úrbætur á gölluðum hlut. Með því að semja um úrbótarétt eða skyldu er hægt að krefjast úrbóta í öðrum tilvikum en þegar almennar reglur mæla fyrir um. Samningsákvæði um úrbætur geta einnig takmarkað rétt til þess að nýta önnur úrræði í tilefni af vanefnd. Það kann að vera hagstæðara fyrir seljanda að gera úrbætur í tilefni af galla en að kaupandi nýti sér önnur úrræði til að ná fram rétti sínum. Hugsast getur að auðveldara sé fyrir seljandann en aðra að gera slíkar úrbætur. Með því að gera úrbætur á söluhlut er seljandinn í raun að efna samninginn eftir innihaldi hans og standa því viðskiptin óhögguð. Af meginreglunni um skuldbindingargildi samninga leiðir að kaupandi er bundinn af því ef samið er um rýmri rétt seljanda til þess að gera úrbætur. Á móti kemur að seljanda er þá rétt og skylt að gera úrbæturnar. Það kunna þó að vera ákveðnar takmarkanir á slíkum samningsákvæðum og verður einnig fjallað um þær.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Samningsakvæði um urbætur.pdf | 409,07 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_HelgaHrönn.pdf | 300,42 kB | Lokaður | Yfirlýsing |