Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/23924
Eitt af megineinkennum íslensks viðskiptalífs er samningsfrelsið. Grundvallarregla samningaréttar er samningsfrelsið þar sem mönnum er frjálst að ráðstafa hagsmunum sínum með löggerningi. Samningsfrelsið veitir mönnum almennt víðtækar heimildir til að ákvarða með hvaða hætti samið er. Þannig geta samningsaðilar haft í samningi samningsbundin vanefndaúrræði sem kveða á um frávik frá almennum reglum kröfuréttar er kemur að vanefndum samnings. Slík frávik frá almennum reglum kröfuréttarins eru þó hvorki undantekninga- né takmarkalaus.
Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að litið sé á samningssambandið sem samleik, í stað þess að líta á aðila sem andstæðinga í viðureign við samningsborðið, enda mönnum skylt að huga einnig að hagsmunum viðsemjanda síns. Með því breytta viðhorfi hafa takmarkanir samningsfrelsisins aukist og jafnframt náð til fleiri þátta.
Févíti er eitt þeirra vanefndaúrræða sem mönnum er heimilt að semja um. Það hefur lengi verið venja að semja um févíti á sviði verktaka- og vinnuréttar og það þá yfirleitt kallað dagsektir eða tafabætur. Sjaldséðara er févíti á sviði lánssamninga þó það sé ekki með öllu óþekkt úrræði. Þar sem tilgangur févítis í lánssamningum er ólíkur tafabótum á öðrum réttarsviðum er beiting þess með nokkuð öðru móti og er fjallað um þann mismun í ritgerðinni, ásamt því að fara nokkrum orðum um kosti þess og galla.
Loks er skoðað hvaða augum Hæstiréttur lítur févíti í lánssamningum og hvaða þættir þess ráða niðurstöðum Hæstaréttar. Skoðað er hvaða þýðing 36. gr. samnl. hefur við mat Hæstaréttar sem og heildarmat samninga. Ályktanir eru loks dregnar um það hvernig best er að beita févíti í lánssamningum svo að ekki sé hætta á að því verði vikið frá að hluta eða í heild af dómstólum.
Umfjöllunin er byggð upp með þeim hætti að fyrst er fjallað um réttarheimildirnar og þær grundvallarreglur samningsréttar þar sem samspil samningsfrelsisins og skuldbindingargildi samninga er skoðað. Þá er gerð grein fyrir samningsbundnum vanefndaúrræðum og sérstaklega fjallað um févíti sem vanefndaúrræði og hvernig það birtist á mismunandi réttarsviðum. Skoðaðar er mismunandi birtingarmyndir févítis innan lánssamninga og tenging þess við hlutverk vaxta. Dómaframkvæmd er lýtur að févíti innan lánssamninga eru gerð nokkur skil og hugleiðingar um heildarmat samninga settar fram. Að lokum eru ályktanir dregnar um skuldbindingargildi févítis og hvernig því verður best beitt innan lánssamninga.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerd-Feviti-i-lanssamningum-RRS-2016.pdf | 482.16 kB | Open | Heildartexti | View/Open | |
Yfirlýsing_Rebekka.pdf | 306.93 kB | Locked | Yfirlýsing |