Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/23955
Í þessari ritgerð verður gerð grein fyrir hinu nýja fjármálaeftirlitskerfi Evrópusambandsins sem komið var á fót í kjölfar fjármálakreppunnar árin 2007 og 2008. Fjallað verður um þær stofnanir sem hið nýja kerfi samanstendur af, hvaða hlutverkum þær gegna, ásamt vald- og rannsóknarheimildum þeirra gagnvart lögbærum yfirvöldum og fjármálastofnunum. Í því sambandi verður vikið að þróun löggjafar ESB á fjármálamarkaði svo og ástæður þess að þessu nýja eftirlitskerfi var komið á fót.
Þungamiðja ritgerðarinnar mun beinast að þeim stjórnskipulegu álitamálum sem hinar nýju reglugerðir ESB um eftirlit á fjármálamarkaði vekja, ef það yrði tekið óbreytt upp í EESsamninginn og þær mögulegu lausnir sem Ísland stendur frammi fyrir í þeim efnum. Þannig verða þau stjórnarskrárákvæði sem helst koma til álita varðandi framsal valdheimilda skoðuð, og út frá þeim dregnar ályktanir um hvort hið nýja eftirlitskerfi rúmist innan marka þeirra, en upptaka þessara gerða reynir mjög á þolmörk stjórnarskrárinnar vegna tilfærslu á ákvörðunarvaldi til stofnana ESB, þ.e. hinna nýju eftirlitsaðila. Til að mynda hafa þessar stofnanir, að vissum skilyrðum uppfylltum, heimild til að taka bindandi ákvarðanir gagnvart stjórnvöldum og fjármálastofnunum.
Íslenska stjórnarskráin er hins vegar með öllu þögul um slíkar heimildir og því mikið
svigrúm til mats í þessum efnum. Í áliti sérstakrar nefndar utanríkisráðherra, „fjórmenningana“ svonefndu, var niðurstaðan í megindráttum sú að stjórnarskráin veitir ákveðið svigrúm til að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana og að lögfesting samningsins útheimti ekki stjórnarskrárbreytingu. Sú niðurstaða hefur þó ekki verið án gagnrýni og ekki allir á sama máli hvað þetta varðar.
Að lokum verður vikið að niðurstöðum Bjargar Thorarensen og Stefáns Más Stefánssonar í álitsgerð þeirra frá 25. apríl 2012 um stjórnskipulegar heimildir landsréttar og möguleika á innleiðingu reglugerða ESB um eftirlit með fjármálamörkuðum í EES-samninginn. Þar að auki verður minnst á samþykkt sem náðist í þessum efnum haustið 2014 um hvernig hið nýja eftirlitskerfi gæti aðlagast EES-samningnum með tilliti til þeirra takmarkana sem íslenska stjórnarskráin setur framsali valdheimilda.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Agnes Vestmann.pdf | 322.99 kB | Open | Heildartexti | View/Open | |
Yfirlýsing_Agnes.pdf | 314.08 kB | Locked | Yfirlýsing |