Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2402
Í þessari ritgerð skoða ég þrjár persónur úr kvikmyndum frá síðustu tveimur áratugum í ljósi kenninga Friedrichs Nietzsche. Ég mun einbeita mér sérstaklega að hugmynd hans um ofurmennið, og velta upp þeirri spurningu hvort Tyler Durden úr kvikmyndinni Slagsmálaklúbburinn, Hannibal Lecter úr þríleik kvikmynda sem byggja á sögum Thomasar Harris, og Phil Connors úr kvikmyndinni Dagur múrmeldýrsins eigi eitthvað skylt með ofurmenni Nietzsches. Ég leitast við að greina þessar persónur út frá því sem Nietzsche ræðir um ofurmennið í verkum sem voru gefin út á árunum 1882-1886, og skoða sérstaklega það verka hans sem ítarlegast fjallar um ofurmennið, Svo mælti Zaraþústra.
Hugmyndin um ofurmennið hefur afbakast á þessum rúmu hundrað árum síðan hún kom fram, og í dag er svo farið að vísi að henni er að finna víða í vinsældarmenningu okkar tíma. Það virðist sem svo að hugmynd almennings sitji föst í ákveðnum vítahring, og að öll umræða um ofurmennið fari iðulega fram í tengslum við hið illa og ómanneskjulega. Þó kemur í ljós þegar þessar persónur eru mátaðar við kenningarnar um ofurmennið, viljann til valds og hina eilífu endurkomu, að það er hin jákvæðasta af þessum þremur sem líkist ofurmenninu hvað mest. Það virðist vera að þegar kemur að illmennunum, skorti alltaf upp á það lykilatriði í hugsjóninni um ofurmennið sem felst í sköpun sjálfsins og nýrra gilda. Undir lok kvikmyndarinnar Dagur múrmeldýrsins á aðalsöguhetjan að baki þroskagöngu sem hvorki Tyler Durden né Hannibal Lecter geta státað af. Einungis Phil Connors hefur því réttilega sigrast á sjálfum sér í þeim skilningi að teljast ofurmenni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
rHalldorssonBA_fixed.pdf | 431.68 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |