Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2405
Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga áhrif þungbærrar lífsreynslu á líðan
björgunarsveitarmanna á Íslandi. Markmiðið var að kanna tíðni þungbærrar lífsreynslu, neikvæðar afleiðingar í kjölfar hennar (áfallastreitueinkenni og þunglyndi)
og varnarviðbrögð björgunarsveitarmanna. Að fengnum öllum tilskyldum leyfum voru spurningalistar sendir á nokkrar virkustu björgunarsveitir Slysavarnafélagsins
Landsbjargar ásamt því að vera lagðir fyrir á ráðstefnu félagsins, Björgun 2008. Alls
tóku 277 björgunarsveitarmenn þátt. Tilgátur rannsóknarinnar voru að þeir
björgunarsveitarmenn sem ekki búa yfir víðtækri reynslu og þjálfun í starfi eru
líklegri til að þróa með sér einkenni áfallastreituröskunar og neikvæðar afleiðingar í kjölfarið en björgunarsveitarmenn sem hafa fengið meiri þjálfun og tekið hafa þátt í mörgum útköllum. Einnig að þeir sem nota frekar tilfinningamiðuð varnarviðbrögð og forðun eru líklegri til að greina frá áfallastreitueinkennum og þunglyndi en þeir sem ekki greina frá slíkum varnarviðbrögðum og að þeir sem nota frekar lausnarmiðuð
varnarviðbrögð eru síður líklegri til að greina frá áfallastreitueinkennum og þunglyndi en þeir sem ekki greina frá slíkum varnarviðbrögðum. Helstu niðurstöður
rannsóknarinnar voru að hlutfall þátttakenda sem hafði áfallastreitueinkenni yfir
viðmið um áfallastreituröskun var 12,3%. Hlutfall þátttakenda sem hafði
þunglyndiseinkenni yfir viðmið um þunglyndi var 8,7%. Niðurstöður leiddu jafnframt
í ljós að hvorki reynsla af starfi í björgunarsveit né námskeiðafjöldi tengdust
einkennum áfallastreituröskunar og þunglyndis. Þeir sem höfðu upplifað þungbæra
lífsreynslu ótengda starfi í björgunarsveit greindu að meðaltali frá meiri áfallastreitueinkennum og þunglyndi. Niðurstöður sýndu jafnframt að
björgunarsveitarmenn sem notuðu tilfinningamiðuð varnarviðbrögð og/eða forðun til að takast á við streituvaldandi atburði höfðu tilhneigingu til að upplifa meiri áfallastreitueinkenni og þunglyndi en þeir sem notuðu slík varnarviðbrögð í minna
mæli. Ólíkt því sem búist var við reyndust ekki vera marktæk tengsl milli
lausnarmiðaðra varnarviðbragða og einkenna áfallastreituröskunar annars vegar og
þunglyndis hins vegar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Asdis Eir Simonardottir_fixed.pdf | 356.84 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |