is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24057

Titill: 
 • Íslenskar og evrópskar meginreglur um flutningskerfi raforku
Námsstig: 
 • Meistara
Höfundur: 
Útdráttur: 
 • Á síðustu áratugum hefur réttarumhverfið á sviði raforkuréttar tekið miklum breytingum með opnun raforkumarkaðarins. Evrópusambandið hefur stefnt með markvissum hætti að því að koma á virkum innri raforkumarkaði, þar sem samkeppni ríkir í framleiðslu og sölu en flutningur og dreifing raforku eru hins vegar áfram háð einkaleyfum. Áður var raforkumörkuðum almennt þannig háttað að lóðrétt samþætt raforkufyrirtæki, jafnan í eigu hins opinbera, höfðu einokunarstöðu á stóru svæði, jafnvel í heilu aðildarríki. Eitt helsta markmið ESB með opnun raforkumarkaðarins var að tryggja að allir neytendur ættu raunverulegt val um gæði og verð við kaup á raforku.
  Meginumfjöllunarefni ritgerðarinnar lýtur að flutningskerfi raforku og þeirra meginreglna og undantekninga sem um flutningskerfið gilda. Markmiðið með umfjölluninni er að gefa heildstætt yfirlit yfir regluverkið og skýra helstu atriði þess auk þess að gera grein fyrir helstu álitaefnum í réttarframkvæmd. Áherslan er aðallega á ákvæði tilskipunar 2009/72/EB og raforkulaga nr. 65/2003. Með tilskipuninni hafa ítarlegri kröfur verið samþykktar varðandi aðskilnaðarkröfur flutningskerfa frá framleiðslu- og sölustarfsemi raforku. Þá er áhersla lögð á að ákveðnar opinberar þjónustuskyldur séu tryggðar og að gengið sé úr skugga um að afhendingaöryggi raforku sé tryggt.
  Með gildistöku raforkulaganna urðu grundvallarbreytingar á sviði raforkuréttar á Íslandi enda var með lögunum ráðist í heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku í takt við það sem var að gerast innan ESB. Í ritgerðinni er fjallað um meginreglur raforkulaganna sem lúta að flutningskerfi raforku ásamt helstu ágreiningsatriðum tengdum þeim. Réttarágreiningurinn hefur sérstaklega varðað ákvörðun tekjumarka og setningu gjaldskrár flutningsfyrirtækisins. Úrskurðarnefnd raforkumála hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að meta aðstæðurnar heildstætt í samræmi við tilgang þess fyrirkomulags sem löggjafinn hefur ákveðið við ákvörðun á arðseminni.
  Hvað framtíðina varðar lítur helsta álitamálið að eignarhaldi Landsnets hf. og þeim möguleikum sem standa til boða til að opna fyrir breytingu í því sambandi. Íslenska ríkið hefur hlotið undanþágu frá 9. gr. tilskipunar 2009/72/EB og er af þeim sökum í sjálfsvald sett hvort það hagar eignarhaldi Landsnets hf. áfram með sama hætti og nú eða innleiðir fyrirkomulagið um aðskilið eignarhald. Fyrrnefnd tilskipun bíður hins vegar enn innleiðingar í íslenskan rétt að örfáum undantekningum frátöldum en óljóst er hvenær nákvæmlega af innleiðingunni verður.

Styrktaraðili: 
 • Orkurannsóknarsjóður Landsvirkjunar
Samþykkt: 
 • 2.5.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/24057


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð - final.pdf1.35 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_Peter.pdf293.25 kBLokaðurYfirlýsingPDF