is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/24076

Titill: 
 • Hlutfall úrkasts og ófullkominna röntgenrannsókna: Rannsókn gerð á starfsstöðvum Heilbrigðisstofnunar Austurlands
Námsstig: 
 • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Heilbrigðisstofnun Austurlands nær yfir starfsstöðvar víða um fjórðunginn og á nokkrum þeirra eru gerðar röntgenrannsóknir. Geislafræðingar eru ekki alltaf til staðar í minni bæjarfélögum og því eru aðrir heilbrigðisstarfsmenn að framkvæma rannsóknirnar. Í þessu verkefni voru röntgenrannsóknir á þremur starfsstöðvum skoðaðar og reiknað út hlutfall af úrkasti mynda og ófullkomnum röntgenrannsóknum. Rannsóknir hafa sýnt hlutfall úrkasts allt að 11% í stafrænum myndgreiningarbúnaði, það þykir of hátt miðað við hvað tæknin er orðin góð.
  Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að meta gæði rannsókna á starfsstöðvum Heilbrigðisstofnunar Austurlands með því að mæla hlutfall úrkasts og ófullkominna röntgenrannsókna á hverjum stað fyrir sig. Jafnframt var skoðað hvort munur sé á gæðum eftir því hvort geislafræðingar eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn framkvæmdu rannsóknirnar.
  Efni og aðferðir: Gögnum var safnað saman frá starfsstöðvum í Neskaupstað, á Egilsstöðum og Vopnafirði. Um það bil 100 rannsóknir voru skoðaðar á hverjum stað sem framkvæmdar voru fyrri hluta árs 2015. Á Egilsstöðum voru bæði geislafræðingar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn að taka röntgenmyndir og gögn voru skráð niður í sitt hvoru lagi. Í Neskaupstað var alltaf geislafræðingur til staðar en á Vopnafirði aldrei. Beitt var fjórum aðferðum til að vinna úr gögnunum. Í fyrsta lagi var kannað hversu margar rannsóknir voru skráðar ófullkomnar samkvæmt röntgenlækni. Í öðru lagi voru gæði allra rannsókna endurmetin með því að kanna meðal annars innstillingu, hliðarmerkingar og fjölda mynda í hverri rannsókn. Í þriðja lagi var úrkast metið með því að telja myndir sem voru endurteknar. Í fjórða lagi var úrkast metið á þann hátt að telja þær myndir sem ekki bárust til úrlesturs.
  Niðurstöður: Ófullkomin röntgenrannsókn: Hæst hlutfall ófullkominna rannsókna var á Egilsstöðum á því tímabili sem enginn geislafræðingur var við störf eða 17,3%. Lægst var það í Neskaupstað eða 0,9%. Helstu ástæður fyrir ófullkomnun voru vegna rangrar innstillingar og að það hafi vantað fleiri myndir í röntgenrannsóknir.
  -Endurmat gæða: Á Vopnafirði fengu 67,9% rannsókna athugasemdir þar sem það var hæst en lægst var það í Neskaupstað eða 1,9%. Helstu ástæður fyrir athugasemdum voru vegna þess að það vantaði hliðarmerkingar og vegna rangrar innstillingar.
  -Talning á myndum sem voru endurteknar: Á Vopnafirði voru oftast myndir endurteknar eða 6,2% mynda og sjaldnast í Neskaupstað eða 1,5%. Ástæða fyrir endurtekningum mynda var í 53% tilfella vegna rangrar innstillingar.
  -Talning á myndum sem ekki voru sendar til úrlesturs: Hæsta hlutfall mynda sem ekki bárust til úrlesturs voru teknar á Egilsstöðum þegar ekki var geislafræðingur til staðar eða 9,4% mynda. Á Egilsstöðum þegar geislafræðingur var til staðar voru allar myndir sendar til úrlesturs. Heildarhlutfall úrkasts var hæst á þeim stöðum sem ekki voru geislafræðingar.
  Ályktanir: Munur er á hlutfalli úrkasts og ófullkominna rannsókna á milli starfsstöðva. Heilbrigðisstofnun Austurlands ætti að stefna að því að búa til verklagsreglur yfir hvaða rannsóknir má gera á þeim stöðum sem ekki er geislafræðingur og bjóða öðrum starfsmönnum upp á þjálfun í framkvæmd rannsókna.

Samþykkt: 
 • 2.5.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/24076


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerd_Hafrun.pdf873.13 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna