Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/24079
Norður-Írland hefur verið hluti af Bretlandi frá árinu 1920. Í Bretlandi er löglegt að fara í fóstureyðingu en löggjöf Bretlands hefur aldrei náð til Norður-Írlands. Markmið ritgerðarinnar er að svara því hvers vegna fóstureyðingarlöggjöf Bretlands hefur aldrei náð til landsins, sem hefur þó lotið stjórn Bretlands frá árinu 1920. Kenningum um síðheimsvaldastefnu, síðnýlenduhyggju, kynjakerfi og styðjandi- og mengandi kvenleika er beitt á viðfangsefnið. Því næst er sögu Norður-Írlands og Írlands gerð skýr skil, vegna klofnings og átaka meðal íbúa sem einkenna fortíð landsins. Átök fortíðarinnar hafa skipt sköpum við mótun stjórnskipulags landsins og m.a. verið orsök aukinnar valdadreifingar til Norður-Írlands. Einn kafli fjallar um hugmyndafræðilega íhaldssemi sem einkennir umræðu um fóstureyðingar í samfélagi og stjórnmálum Norður-Írlands. Einnig voru áhrif íhaldssemi kaþólsku kirkjunnar könnuð. Ítök kirkjunnar má finna víða, m.a. í stjórnmálunum sem hefur leitt til þess að útvíkkun á fóstureyðingarlöggjöfinni hefur ítrekað mistekist. Loks er almenn umfjöllun um fóstureyðingar og upplifun kvenna af þeim. Þar kristallast áhrif átakanlegrar fortíðar og hugmyndafræðilegrar íhaldssemi. Ekki fannst eitt svar við rannsóknarspurningu ritgerðarinnar, hvers vegna fóstureyðingar eru ólöglegar í Norður-Írlandi. Ástæður ólöglegra fóstureyðinga í Norður-Írlandi má rekja til ýmissa áhrifaþátta; sögunnar; samsetningu íbúa landsins; viðhorfa samfélagsins og stjórnvalda. Sennilegasta ástæðan er líklega ýmisskonar samkomulög á milli Norður-Írlands og nýlenduherrastjórnarinnar, sem juku verulega völd og sjálfstæði Norður-Írlands.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ólöglegar fóstureyðingar í Norður-Írlandi.pdf | 645.44 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_Matthildur.pdf | 290.97 kB | Lokaður | Yfirlýsing |