is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24095

Titill: 
 • Er faglega staðið að ráðningum hjúkrunarfræðinga á Landspítala Háskólasjúkrahúsi?
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort faglega er staðið að ráðningum hjúkrunarfræðinga á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, með því að fá innsýn í reynslu hjúkrunardeildarstjóra af ráðningum hjúkrunarfræðinga. Áhugavert er að skoða ráðningar hjúkrunarfræðinga sérstaklega þar sem álag í störfum þeirra er mikið. Þjóðin er að eldast og fólk lifir lengur með margþætt heilsufarsvandamál á sama tíma og vöntun er á hjúkrunarfræðingum til starfa bæði hér á landi og víða erlendis. Eldri rannsóknir hafa sýnt að ekki er alltaf staðið faglega að ráðningum í íslenskri stjórnsýslu og geta mistök í ráðningum verið kostnaðarsöm fyrir stofnanir og fyrirtæki.
  Það er að ýmsu að huga þegar hjúkrunarfræðingar eru ráðnir inná Landspítala Háskólasjúkrahús því fylgja þarf lögum sem gilda um ríkisstarfsmenn s.s. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, stjórnsýslulögin nr. 37/1993 og reglur um auglýsingaskylduna nr. 464/1996. Lög og reglur setja hjúkrunardeildarstjórum ákveðnar skorður þegar kemur að ráðningum hjúkrunarfræðinga.
  Viðfangsefnið er skoðað út frá tveimur módelum sem tengjast bæði ráðningum en eru mjög ólík. Í fyrsta lagi er það módel um aðferðir mannauðsstjórnunar sem leggja áherslu á faglegt ráðningarferli þar sem einstaklingar eru ráðnir eftir ákveðnu ferli og hæfasti umsækjandinn er valinn. Í öðru lagi er skoðað módel um styrk veikra tengsla (strength of weak ties) en það felst í því að fólk fær gjarnan störf í gegnum tengsl sín við kunningja.
  Eigindlegri rannsóknaraðferð var beitt til þess að skoða ráðningar hjúkrunarfræðinga og voru fimm hjúkrunardeildarstjórar sem tóku þátt í rannsókninni sem valdir voru með snjóboltaúrtaki. Tekin voru hálf stöðluð viðtöl þar sem stuðst var við viðtalsramma.
  Ráðningarmál eru stórt viðfangsefni hjá hjúkrunardeildastjórum og benda niðurstöður úr viðtölum til þess að ráðningar hjúkrunarfræðinga séu sjaldnast eftir aðferðum mannauðsstjórnunar. Fáir sæki um þegar stöður eru auglýstar og margir hjúkrunarfræðingar sem eru ráðnir inn hafi tengsl við deildir og hafa verið nemar þar á námstíma sínum. Deildarstjórar á Landspítala Háskólasjúkrahúsi vilja geta ráðið inn þegar vantar með því að auglýsa lausar stöður og velja hæfasta umsækjandann. Vandinn virðist vera sá að það er of lítið framboð á hjúkrunarfræðingum miðað við eftirspurn til að hægt sé að fara eftir aðferðum mannauðsstjórnunar og því er oft ráðið inn eftir óformlegri leiðum eins og félagslegum tengslum fólks.
  Lykilorð: Ríkisstarfsmenn, hjúkrunarfræðingar, ráðningar, auglýsingaskyldan, starfsmannalög, stjórnsýslulög, mannauðsstjórnun, styrkur veikra tengsla.

Samþykkt: 
 • 3.5.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/24095


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaritgerð.pdf2.02 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf314.21 kBOpinnYfirlýsingPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_VigdísBirna.pdf302.17 kBLokaðurYfirlýsingPDF