Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2418
Engin ein skilgreining er til á heimilisofbeldi en sú hugmynd að ofbeldið sé ferli en ekki einstakur atburður er sammerkt mörgum skilgreiningum sem komið hafa fram á sjónarsviðið. Einnig að um sé að ræða kúgunar- og stjórnunarferli þar sem ofbeldismaðurinn reynir að fá þolandann til að lúta sínum vilja. Í þröngri merkingu orðsins heimilisofbeldi er um að ræða líkamlegt ofbeldi sem á sér stað inni á heimili. Í dag er lagður víðtækari skilningur í þetta hugtak. Fleiri tegundir ofbeldis en hið líkamlega fellur þarna undir, til að mynda kynferðisleg, andleg og fjárhagsleg kúgun. Einnig er heimilisofbeldið ekki einskorðað við heimilið þó að það sé vettvangurinn í stórum hluta tilfella. Hvað sem líður mismunandi heitum eða skil¬greiningum þá er grundvallar¬hugmyndin ávallt sú sama. Um er að ræða beitingu valds í þeim tilgangi að kúga einstakling sem tengdur er ofbeldismanninum tilfinningaböndum.
Á síðustu áratugum hefur athygli alþjóðasamfélagsins í auknum mæli beinst að heimilis-ofbeldi sem og stöðu kvenna í samfélaginu og hvernig megi rétta stöðu þeirra. Í því skyni hafa ýmsar ráðstefnur verið haldar, sáttmálar gerðir og yfirlýsingar og tilmæli gefin út, bæði á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins. Á Norðurlöndunum hefur þessi málaflokkur fengið aukið vægi á undanförnum árum. Í Noregi og Svíþjóð hafa verið innleidd ákvæði í hegningarlög sem sérstaklega er ætlað að taka til heimilisofbeldis með heildstæðum hætti. Dönsk stjórnvöld hafa farið aðra leið en framangreind lönd. Í stað þess að innleiða sérstakt ákvæði sem tekur til heimilisofbeldis hafa þeir sett fram aðgerðaráætlanir sem sérstaklega taka til ofbeldis gegn konum og börnum í nánum samböndum. Hins vegar er ofbeldi refsivert samkvæmt dönskum hegningarlögum.
Hér á landi er ekki að finna neina lagalega skilgreiningu á hugtakinu heimilisofbeldi né heldur að í íslenskum lögum sé að finna sérstakt refsiákvæði sem nær yfir alla þætti heimilisofbeldis. Hins vegar eru ýmis lagaákvæði, bæði í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og öðrum lögum sem taka til einstakra þátta heimilisofbeldis og gera þá refsiverða. Þá hefur heimilisofbeldi verið skilgreint á ýmsum vettvangi og með mismunandi hætti. Má því segja að inntak heimilisofbeldis hafi verið nokkuð á reiki og að vissu leyti óljóst hvað aðgreinir það frá öðru ofbeldi. Tengsl milli aðila virðast skipta miklu máli, ef ekki mestu við aðgreiningu heimilisofbeldis frá öðru ofbeldi. Eins virtist tilgangur ofbeldisins og fjöldi ofbeldisverknaða hafa áhrif á hvort ofbeldi teldist vera heimilisofbeldi. Þeir aðilar sem hafa heimilisfesti á sama stað teljast að jafnaði aðilar heimilisofbeldis. Þegar aðilar, eins og foreldrar og niðjar þeirra, systkini eða tengdaforeldrar hafa ekki heimilisfesti á sama stað þarf að líta til hversu mikil samskipti eru á milli þeirra sem og tilgang ofbeldisins. Vistmenn og umönnunaraðilar á stofnunum eins og heimilum fyrir fatlaða eða aldraða geta talist aðilar heimilisofbeldis, sér í lagi ef ofbeldið er ítrekað og náin tengsl hafa skapast en meta þarf aðstæður og málið í heild sinni. Þegar um er að ræða vistmenn og umsjónaraðila á stofnunum eins og fangelsi, réttargeðdeild og vistheimili fyrir börn og ungmenni eru mörkin óljósari. Nær útilokað er að fangar eða fangaverðir geti fallið þarna undir. Aðilar annarra nefndra stofnana geta fallið þarna undir þar sem að náin tengsl geta myndast vegna andlegs ástands vistmanns annað hvort sökum æsku eða geðrænna vandamála. Meta þyrfti þó málsatvik í heild sinni með tilliti til tengsla aðila og tilgang ofbeldis.
Með tilliti til skýrleikakröfu 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 væri æskilegra að setja sérstakt refsiákvæði sem með heildstæðum hætti tæki til heimilisofbeldis. Gerð er tillaga að slíku ákvæði þar sem fram kemur með skýrum hætti hvað felst í heimilisofbeldi og hverjir teljast aðilar þess.
Leiðbeiningareglur og gátlisti sem ætlaðar eru lögreglumönnum starfandi hjá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er þarfar og gott innlegg til þess að veita þessum málaflokki aukið vægi og gera meðferð og rannsókn þessara mála skilvirkari. Gerð er tillaga að slíkum leiðbeiningum og gátlista.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
lokaskjal_fixed[1].pdf | 917.93 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |