is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24205

Titill: 
 • Börn sem vitni í sakamálum: Framkvæmd á Íslandi í ljósi alþjóðaskuldbindinga
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Börn eru berskjaldaðasti og viðkvæmasti hópur samfélagsins og ber ríkinu af þeim sökum að veita þeim sérstaka vernd. Mikilvægt er að hagsmuna þeirra sé gætt í hvívetna og á það sjónarmið ekki síst við þegar um er að ræða rannsókn og meðferð sakamála þar sem börn eru vitni eða brotaþolar. Markmið með skýrslutöku af vitnum er að upplýsa mál svo sem kostur er en við rannsókn og meðferð sakamála leikast á margvísleg sjónarmið. Þau birtast meðal annars í skyldu rannsakenda til að gæta hlutleysis og leita sannleikans, réttindum sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar, sem og þess sjónarmiðs að skýrslutökur af vitnum séu framkvæmdar á þann hátt að sem til minnstra óþæginda verði fyrir vitni, sérstaklega ef það er ungt að árum.
  Markmið þessarar ritgerðar er tvíþætt. Annars vegar að fjalla um réttarstöðu barna sem vitna í sakamálum samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum skuldbindingum. Hins vegar að svara þeirri spurningu hvort löggjöf og framkvæmd á Íslandi samræmist kröfum alþjóðlegra mannréttindasáttmála um réttindi barna sem eru vitni í sakamálum, um leið og virtur er réttur sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar eins og honum er tryggður í 70. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994.
  Viðfangsefni ritgerðarinnar er fyrst og fremst á sviði mannréttinda þar sem borin verða saman réttindi barna sem vitna með tilliti til þeirra skyldna sem hvíla á íslenska ríkinu annars vegar og réttinda sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar hins vegar. Til þess að sá samaburður sé mögulegur þarf þó einnig að fjalla töluvert um réttarstöðu barna sem vitna samkvæmt lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008. Kannað er hvaða sérreglur innan löggjafar um sakamálaréttarfar gilda um börn sem vitni til að unnt sé að komast að niðurstöðu um hvernig framkvæmdin í raun samræmist þeim skyldum sem á ríkinu hvíla gagnvart þeim. Þar sem brotaþolar í sakamálum teljast einnig vera vitni, en ekki aðilar máls, er einnig nauðsynlegt að kanna réttarstöðu þeirra sérstaklega og bera saman við réttarstöðu annarra vitna þegar um börn er að ræða. Í því samhengi verður fjallað um reglur um réttargæslumenn og sérstök áhersla lögð á álitamál tengd heimilisofbeldi í umfjöllun um brotaþola.
  Í kafla 2 er gerð grein fyrir þeim reglum sem gilda um réttindi barna sem vitna og varpað ljósi á hvaða skyldur, sérstaklega jákvæðar skyldur, hvíla á stjórnvöldum í því samhengi.
  Fyrst verður fjallað um hugtakið barn að því leyti sem það hefur þýðingu fyrir viðfangsefnið, en í framhaldi af því um eðli jákvæðra skyldna. Að því loknu verða réttindi barna sem vitna rakin, með sérstakri áherslu á skyldur ríkisins samkvæmt samningi Sameinuðu þjóanna um réttindi barnsins ásamt því að leiðbeiningarreglum og samningum á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins verða gerð skil. Að lokum verða þessi réttindi dregin saman og komist að niðurstöðu um réttarheimildarlega stöðu þeirra.
  Kaflar 3. og 4. eru meginkaflar ritgerðarinnar, þar sem fjallað er um meginreglur sakamálaréttarfars um vitni og undantekningar frá þeim, með tilliti til stöðu barna sem brotaþola og vitna. Leitast verður við að draga upp skýra mynd af íslenskri löggjöf og réttarframkvæmd auk þess að skoða gaumgæfilega við hvaða aðstæður börn geta gefið skýrslu, hvort sem það er á rannsóknarstigi eða fyrir dómi, og hvort hagsmuna þeirra sé nægilega gætt í framkvæmd. Sérstaklega eru skoðaðar reglur um sérútbúin húsnæði og heimild dómara til að kveða kunnáttumenn sér til aðstoðar en í því samhengi er nauðsynlegt að fjalla ítarlega um starfsemi Barnahúss. Varpað er skýru ljósi á hugmyndafræðilegan bakgrunn Barnahúss, starfsemi, viðtalstækni og tölfræði um fjölda skýrslutaka.
  Í síðasta kaflanum verður sjónum beint að réttlátri málsmeðferð sakbornings fyrir dómi samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og hvernig þær reglur rúmast innan þeirra jákvæðu skyldna sem á ríkinu hvíla gagnvart börnum. Áherslan verður að mestu á túlkun Mannréttindadóms Evrópu á þeim réttindum sem sakborning eru tryggð með 6. gr. MSE, þar á meðal réttinum til að vera viðstaddur skýrslutökur og gagnspyrja vitni og hvernig jafnvægi milli þessara andstæðu réttinda sakbornings og barna sem vitna hefur verið túlkað í dómaframkvæmd Mannréttindadóms Evrópu. Að þessu loknu verða niðurstöður dregnar saman í kafla 6 þar sem lagt er mat á það hvort íslensk framkvæmd samræmis alþjóðlegum skuldbindingum um vernd barna sem vitna.
  Umfjöllunin miðast við lög og rétt vorið 2016

Samþykkt: 
 • 6.5.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/24205


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hafdis Una meistararitgerð.pdf1.01 MBLokaður til...05.05.2083HeildartextiPDF
Yfirlýsing_HafdísUna.pdf298.64 kBLokaðurYfirlýsingPDF