Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2422
Í ritgerðinni er fjallað um listaverk tveggja erlendra listamanna sem staðsett eru í Viðey. Annars vegar er þar að finna verk Richard Serra, Áfangar (1990) og hins vegar verk Yoko Ono, Friðarsúlan (2007). Listamennirnir eru mjög svo ólíkir en eiga það þó sameiginlegt að útlit, efni og inntak verka þeirra má rekja til breytinga sem varð á listforminu um miðja síðustu öld. Staðsetning verkanna gefur möguleika á ítarlegri greiningu sambands þeirra við umhverfi sitt og samanburðar þeirra á milli. Þá eru verkin í opinberu rými og því kostur á að rannsaka þau í tengslum við áhorfandann.
Í ritgerðinni eru verkin greind og borin saman í ljósi sambands þessara þriggja þátta, umhverfis, listaverks og áhorfanda. Þær hugmyndir sem liggja verkunum til grundvallar og fjalla um samband hinna þriggja þátta með einum eða öðrum hætti eru reifaðar. Sérstaklega er litið til skúlptúrlistar og hugmyndarinnar um staðbundin(e. site-specific) verk og það sem kalla mætti þátttökulist (e. Relational art). Einnig eru listferlar listamannanna raktir og settir í samhengi stefna og strauma. Þá er listaverkunum, tilurð þeirra og framsetningu gerð ítarleg skil og fjallað um staðsetningu þeirra í Viðey.
Með þetta að leiðarljósi er ritgerðinni ætlað að svara því hvernig staðsetningin á þátt í merkingarsköpun verkanna með tiliti til útlits, efnis eða inntaks og hvort og þá hvernig verkin eru staðbundin. Til þess er stuðst við hugmyndir Kenneth Framptons um Critical Regionalism, en staðfræði umhverfisins er einmitt ein forsenda kenningar Framptons. Þá eru hugleiðingar um hvernig þátttaka áhorfandans bætir við merkingu verksins til viðbótar við merkinguna sem ræðst af sambandi þess við staðsetninguna. Að lokum er því svarað hvernig sambandi þáttanna þriggja, umhverfis, listaverks og áhorfanda, er háttað í verkunum tveimur. Eðli sambandsins má hafa að leiðarljósi þegar meta skal listrænt gildi umhverfislistaverka.
Með því að svara þessum spurningum þá verða til aðrar sem snúa að ytri ramma þáttanna þriggja, þ.e. almennari þáttum og tilhneigingu í nútíma skúlptúrlist, hlutverki Reykjavíkurborgar í mótun og endanlegri útkomu verkanna og á hvern hátt verkunum er ætlað hlutverk og notagildi í samhengi opinbers rýmis borgarinnar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Umhverfi-listaverk-áhorfandi_fixed.pdf | 776.77 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
úrdráttur_fixed.pdf | 72.29 kB | Opinn | Úrdráttur, forsíða | Skoða/Opna |