Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/24230
Baráttan fyrir kynfrelsi kvenna á sér langa sögu. Kynfrelsi hefur verið skilgreint sem rétturinn til að velja og hafna kynferðislegu samneyti, hvar sem er, með hverjum sem er, hvenær sem er. Grundvallarhugtak í lagasetningu um kynferðisofbeldi ætti alltaf að vera kynfrelsi brotaþola þegar gerandinn sýnir kynferðislega hegðun án þess að tryggja að hann hafi til þess fullgilt samþykki hjá þeim sem hegðunin beinist að. Kynferðisbrot teljast með alvarlegustu refsiverðu brotum í íslensku réttarkerfi þar sem brotið er gegn mannréttindum og grundvallarfrelsi brotaþola.
Undanfarin ár hefur umræðan um nauðganir og ofbeldi gegn konum orðið mun opinskárri. Vitneskja um einkenni kynferðisbrota og afleiðingar hefur aukist gífurlega. Þó má víða finna viðhorf sem einkennast af fordómum og vanþekkingu. Enn eimir eftir gömlum og úreltum viðhorfum og hugmyndum sem byggja á því að þolandi eigi að einhverju leyti eða öllu, sök á brotinu. Í kjölfarið er dregið úr athöfnum geranda eða þær réttlættar. Það er því enn mikil nauðsyn á að efla enn frekar umræðu um kynferðisbrot á Íslandi.
Löggjöfin hefur tekið breytingum á síðustu árum í samræmi við breyttan tíðaranda en þó eru úrbætur langt frá því að vera ásættanlegar. Mikilvægt er að réttarkerfið sem við búum við sé aðgengilegt fyrir þolendur kynferðisbrota. Það grundvallarréttur brotaþola að geta farið með mál sitt fyrir dómstóla. Kynferðisbrot eru algeng og skaðleg, bæði fyrir þann sem verður fyrir því og samfélagið í heild.
Opinber umræða og fræðsla til handa fagfólki er forsenda þess að uppræta þau viðhorf og það kerfi sem leiða af sér kynbundið ofbeldi. Mikilvægt er að þolendum kynferðisbrota sé mætt af skilningi hvar sem er í réttarkerfinu þar sem réttur bæði karla og kvenna er metinn að jöfnu. Með gagnrýni og aðhaldi er sett ákveðin pressa á réttarkerfið um að betrumbæta sig og í kjölfarið vinnum við að réttarbótum fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Er ritgerð þessi tilraun til þess.
Rannsóknin hefur þann tilgang að orðræðugreina niðurstöður Hæstaréttar í kynferðisbrotamálum. Við orðræðugreiningu er notast við eigindlegar rannsóknaraðferðir. Rannsakandi skoðar hvort og þá hvernig, hugmyndir um kynjamisrétti birtast í niðurstöðum dómstólanna. Markmið rannsóknarinnar er að benda á mikilvægi þess að dómarar séu upplýstir og fái viðeigandi fræðslu um kynjafræðileg sjónarmið og upplifun kvenna af undirskipun þeirra í samfélaginu. Ennfremur er markmiðið að varpa ljósi á mikilvægi þess að fleiri konur sitji í Hæstarétti.
Helstu niðurstöður eru þær að ekki er lögð eins mikil áhersla á átök og líkamlegt ofbeldi eins og gert var fyrir lagabreytingar árið 2007. Yfirleitt er þó mun meira gert úr líkamlegu ofbeldi heldur en andlegu. Því er alla jafna ekki gefið mikið vægi þótt andlegir áverkar séu til staðar sem að mati sérfræðinga eru afleiðingar nauðgunar. Brotaþoli virðist yfirleitt í betri sönnunarstöðu ef beitt hefur verið líkamlegu ofbeldi. Meginþráður í niðurstöðum dómstóla gegnum árin er mikil og óeðlileg ábyrgð sem lögð er á brotaþola. Jákvætt er að dregið hefur úr þeirri ábyrgð sem lögð er á brotaþola, en hún er samt sem áður enn til staðar þó erfiðara sé að koma auga á hana.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ÞórhildurSæmundsdottir.Skemman.pdf | 1,06 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_Þórhildur.pdf | 303,95 kB | Lokaður | Yfirlýsing |