is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24291

Titill: 
 • Deyi málin, deyja líka þjóðirnar. Um erlend máláhrif og aukið vægi ensku á Íslandi
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Allir Íslendingar kannast við umræðu um að íslenskan sé í bráðri hættu. Hvers kyns breytingar eru gjarnan fordæmdar og áhersla lögð á verndun málsins. Íslenskan hefur löngum þurft að etja kappi við áhrif erlendra mála, t.a.m. dönsk áhrif sem voru áberandi þegar Ísland heyrði undir danskan konung eða ensk áhrif sem ruddu sér braut á hernámsárunum. Á upplýsingaöld kljáist íslenskan svo við umfangsmeiri vanda þar sem notkunarsvið hennar þrengist sífellt á vettvangi þar sem enskan hefur yfirráð.
  Í þessari ritgerð fjalla ég um þrjú ólík tímabil í sögu íslenskunnar sem öll einkennast af áhrifum erlendra mála á íslensku. Ég vildi athuga viðbrögð og viðhorf Íslendinga til þessara áhrifa. Þau voru önnur í upphafi 20. aldarinnar en þau eru nú og virðast því hafa breyst töluvert. Þá fjalla ég um að opinber staða tungumálsins endurspeglar ekki endilega almenna stöðu þess. Á árum áður var samstaða á meðal landsmanna um varðveislu málsins, sem ekki er jafn sterk nú þrátt fyrir að nýverið hafi verið sett lög um íslensku sem þjóðtungu.
  Ákveðin gildisbreyting virðist hafa átt sér stað þar sem enskan hlýtur sífellt meira vægi í lífi Íslendinga á kostnað móðurmálsins. Til að kanna þetta enn frekar lagði ég stutta könnun fyrir málhafa þar sem ég athugaði viðhorf, færni og notkun á ensku og íslensku. Könnunin náði til fólks á aldrinum 18-30 ára annars vegar og 58-70 ára hins vegar. Þátttakendur voru alls 345 talsins. Í ljós kom að yngra fólk mat færni sína í ensku betri en eldra fólkið. Þá þótti þeim jafnframt mikilvægara að hafa góða kunnáttu í ensku. Almennt þótti þátttakendum mikilvægt að hafa góða íslenskukunnáttu. Hvað notkun á málunum varðar kom í ljós að yngra fólk er mun líklegra til að nýta sér ensku í námi, starfi og frístundum. Þá vakti það sérstaka athygli að um 10% yngra fólks er ekki sammála því að það noti íslenska hlustun, lestur og áhorf í frístundum.
  Niðurstöðum ber að taka með fyrirvara um að úrtak var ekki fullkomlega slembið. Þá væri áhugavert að taka fyrir stærra þýði, fleiri aldurshópa og jafnframt að athuga fleiri breytur en aldur. Engu að síður gefa niðurstöðurnar ákveðna vísbendingu um þá viðhorfsbreytingu sem virðist vera að eiga sér stað hjá íslenskum málhöfum gagnvart íslensku og ensku.

Samþykkt: 
 • 6.5.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/24291


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
lokaritgerdprenta.pdf846.75 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_Elín.pdf314.29 kBLokaðurYfirlýsingPDF