is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2432

Titill: 
 • Ákvæði 15. gr. a. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Ákvæðið var fyrst sett í lög nr. 84/1933 um varnir gegn óréttmætum verslunarháttum en fyrir þann tíma fór um vernd slíkra auðkenna eingöngu eftir ákvæðum í firma- og vörumerkjalögum. Ákvæði 15. gr. a. laga nr. 57/2005 má segja að sé nánast orðrétt samhljóða ákvæði 9. gr. laga nr. 84/1933.
  Tilgangurinn með ákvæðinu var að ná til tilvika sem ekki féllu beint undir ákvæði firmalaga eða laga um vörumerki. Talið var að sú vernd sem væri veitt í þeim lögum næði ekki ávallt nógu langt og því væri þörf á almennri samkeppnisreglu um vernd auðkenna. Við setningu síðari tíma löggjafar hefur því verið velt upp hvort áfram sé þörf á ákvæðinu í ljósi aukinnar verndar auðkenna í sérlöggjöf og hefur niðurstaðan verið sú að ákvæðið komi enn að gagni til fyllingar á vörumerkjavernd.
  Hægt er að segja að í ákvæðinu sé í raun um tvenns konar reglur að ræða, annars vegar bann við því að nota auðkenni annarra, en hins vegar bann við því að nota eigin auðkenni þannig að því verði ruglað saman við einkenni annarra.
  Ákvæðið hefur ekki verið svo fyrirferðamikið í dómum undanfarinna ára en aftur á móti hefur það óspart komið fyrir í ákvörðunum Neytendastofu (og áður samkeppnisráðs), einnig er það að finna í úrskurðum áfrýjunarnefndar neytendamála. Í raun er hægt að segja að flestar ákvarðanir og úrskurðir neytendayfirvalda hafa snúist um þetta tiltekna ákvæði. Algengustu deiluefnin eru firmanöfn, lén og vörumerki.
  Við mat á því hvort brotið hafi verið gegn ákvæðinu er meðal annars litið til eftirfarandi; þess hvort orðið sé almennt eða hvort það sé sérstakt að einhverju leyti, hvort auðkennið hafi verið skráð (til dæmis í fyrirtækjaskrá), hvort ruglingshætta sé fyrir hendi, hvort viðkomandi aðilar séu keppinautar á markaði, hvort neytendur telji að um tengsl geti verið að ræða milli aðilanna sem um ræðir og hvort viðkomandi hafi verið í góðri trú þegar hann tók upp auðkennið. Þetta eru helstu atriðin sem eru skoðuð varðandi ákvæði 15. gr. a. en annars fer það eftir aðstæðum hverju sinni. Í raun á sér stað heildarmat þessara þátta þegar kannað er hvort brotið hafi verið gegn umræddu ákvæði.
  Svo virðist sem svipuð sjónarmið séu við lýði í Danmörku og Noregi og eru á Íslandi þegar kemur að túlkun ákvæðis 15. gr. a., að minnsta kosti hvað grundvallaratriðin varðar. Þó er í norrænni dómaframkvæmd mikið litið til þess hvort notkun á tilteknu auðkenni brjóti í bága við góða viðskiptahætti en það kemur ekki jafn skýrt fram hjá íslenskum dómstólum.
  Einnig er fjallað um Neytendastofu í ritgerðinni og hvaða úrræði hún hefur við brotum á ákvæðinu en aðgerðir hennar geta falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði samkvæmt 2. mgr. 21. gr. b. laga nr. 57/2005. Ef hins vegar ekki er farið eftir fyrirmælum Neytendastofu getur hún lagt á dagsektir eða stjórnvaldssektir.
  Ljóst er að alltof fáir dómar hafa fallið um ákvæðið og væri mjög til bóta fyrir bæði Neytendastofu og áfrýjunarnefnd neytendamála ef fleiri dómar féllu um ákvæðið því þá myndu um leið falla leiðbeinandi fyrirmæli sem þau gætu fylgt í framkvæmd. Einnig hefur verið bent á að farsælt væri að losa Neytendastofu undan eftirliti með 15. gr. a. og gefa stofnuninni þannig aukið ráðrúm til að sinna eftirliti með því að beinir hagsmunir neytenda séu tryggðir. Þessu hefur verið haldið fram þar sem afar mikill tími stofnunarinnar fer í úrlausn álitaefna varðandi ákvæðið, sem er í eðli sínu samkeppnisréttarlegs eðlis.

Samþykkt: 
 • 5.5.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/2432


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ákvæði 15. gr. a_fixed.pdf602.46 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna