is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2434

Titill: 
 • Almenn skilyrði gæsluvarðhalds
Titill: 
 • General conditions of custody
Námsstig: 
 • Meistara
Höfundur: 
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Afbrot hafa fylgt samfélagi manna frá örófi alda. Manndráp, nauðgun og rán eru samfélagsmein sem eiga það sameiginlegt að teljast til alvarlegra afbrota. Hagsmunir og siðferðisvitund almennings krefjast þess að menn sem grunaðir eru um alvarleg afbrot gangi ekki lausir meðan mál þeirra eru til rannsóknar hjá lögreglu eða meðferðar hjá dómstólum. Í sakamálum er rannsókn lögreglu oftar en ekki umfangsmikil og tímafrek. Nauðsyn og mikilvægi gæsluvarðhalds sem rannsóknarúrræðis kemur berlega í ljós þegar lögregla þarf að kljást við flókin mál.
  Íslensk löggjöf á sviði sakamálaréttarfars dregur dám af norrænni löggjöf og þá sérstaklega danskri. Lagareglur um gæsluvarðhald voru í upphafi ósamstæðar og óskýrar. Allt frá miðri síðustu öld hefur löggjafinn leitast við að bæta úr þeim óskýrleika og nú er greint með skýrum og greinargóðum hætti á milli almennra og sérstakra skilyrða gæsluvarðhalds.
  Meginmarkmið þessarar ritgerðar er að fjalla um hvaða almennu skilyrði eru sett fyrir því að yfirvöldum sé heimilt að úrskurða menn í gæsluvarðhald. Gæsluvarðhald er þvingunarráðstöfun í þágu meðferðar sakamáls og felst í því að svipta mann frelsi um lengri tíma. Gæsluvarðhaldi er yfirleitt beitt á rannsóknarstigi máls og veitir lögreglu svigrúm til að vinna að rannsókn máls hins grunaða án þess að hann eigi möguleika á því að hafa áhrif á eða torvelda hana. Hins vegar eru gerðar mjög ríkar kröfur til þess að yfirvöldum sé heimilt að skerða grundvallarréttindi borgaranna. Réttur manns til frelsis og frjálsræðis verður einungis skertur samkvæmt skýrri og ótvíræðri heimild í lögum.
  Samkvæmt 95. gr. sml. eru almenn skilyrði gæsluvarðhalds fimm talsins en tvö ný skilyrði bættust við þegar lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála (sml.) tóku gildi. Í 1. mgr. 95. gr. sml. er að finna þrjú hinna almennu skilyrða, í fyrsta lagi að sakborningur hafi náð fimmtán ára aldri, í öðru lagi að rökstuddur grunur sé uppi um refsivert brot hans og í þriðja lagi að meint brot hans varði fangelsisrefsingu. Í 3. mgr. 95. gr. sml. segir að samræmi skuli vera á milli gæsluvarðhalds og væntanlegrar refsingar sakbornings. Loks er kveðið á um í 4. mgr. 95. gr. sml. að sakborningur skuli að jafnaði ekki sæta gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur.
  Af dómaframkvæmd má sjá að skilyrðið um rökstuddan grun hefur einna helst valdið skýringarvandkvæðum. Mörg atriði koma til skoðunar þegar metið er hvort að rökstuddur grunur um refsivert brot sakbornings er fyrir hendi, t.a.m. sakarferill, neitun hans á sakargiftum, framburður brotaþola og annarra vitna o.fl. Hins vegar er ekkert eitt ákveðið atriði sem leiðir til þess að skilyrðinu teljist vera fullnægt og hvenær ekki, heldur er um heildstætt mat á málsatvikum að ræða hverju sinni. Nýju skilyrðin tvö sem komu inn í lög nr. 88/2008 eru ekki svo ólík. Bæði miða þau að því að takmarka eins og kostur er þann tíma sem sakborningur er látinn sæta gæsluvarðhaldi. Eðli máls samkvæmt skortir dómaframkvæmd um hin nýju skilyrði.

Samþykkt: 
 • 5.5.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/2434


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
JonK_fixed.pdf1.31 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna