Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/24340
Við upphaf tíunda áratugarins mátti merkja aukna viðleitni á meðal íslenskra jafnaðarmanna til þess að bylta flokkakerfinu og mynda nýjan stjórnmálaflokk sem gæti sameinað vinstrimenn í breiðfylkingu félagshyggjufólks. Hlutverk flokksins yrði fyrst og fremst það að mynda mótvægi gegn Sjálfstæðisflokknum. Markmið þessarar ritgerðar er að kanna hvort endalok kalda stríðsins hafi haft afgerandi áhrif í þessu sameiningarferli. Íslensk utanríkisstefna hafði lengi verið uppspretta átaka milli Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins en fall múrsins hafði í för með sér stórstígar breytingar á heimsmyndinni sem gáfu til kynna að vægi hernaðar og herstöðva færi minnkandi.
Niðurstaða ritgerðarinnar er sú að endalok kalda stríðsins hafi vissulega haft jákvæð áhrif á sameiningarferlið og mátti þar merkja aukna viðleitni leiðtoga A-flokkanna til þess að hefja viðræður um sameiningu A-flokkanna. Deilur vinstriflokkanna um utanríkismál hurfu þó ekki algjörlega af sjónarsviðinu með endalokum stríðsins en í stað ágreinings um herstöðina og aðild Íslands að NATÓ var tekist á um evrópska samvinnu á sviði efnahagsmála og hernaðar. Hin eiginlega sameining jafnaðarmanna hófst með framboði Nýs vettvangs sem bauð fram í borgarstjórnarkosningum árið 1990 og var ætlað að leiða saman Alþýðuflokkinn og Alþýðubandalagið. Ætlunarverkið tókst þó ekki fyrr en fjórum árum síðar þegar Reykjavíkurlistinn var myndaður en þá náðist samkomulag á milli Nýs vettvangs, Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins, Framsóknarflokksins og Samtaka um kvennalista um að bjóða fram sameiginlegan lista.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ba_ritgerd lokautgafa.pdf | 1,07 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_KristjánPáll.pdf | 284,03 kB | Lokaður | Yfirlýsing |