Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2435
Ritgerð þessi skiptist að meginstefnu í tvo hluta. Fyrri hluti hennar fjallar almennt um eignarnám og þau skilyrði stjórnarskrár, sem eignarnámsheimild verður að uppfylla. Seinni hlutinn fjallar um eignarnámsákvörðunina. Í ritgerð þessari hefur rauði þráðurinn verið sú staðreynd, að ákvörðun um eignarnám er
stjórnvaldsákvörðun. Með því að ganga út frá þeim kröfum, sem stjórnsýslulög gera til slíkra ákvarðana, hefur misræmi fundist milli þeirra laga og eignarnámslaga. Er það ekki furða enda eru þau síðastnefndu frá 1973 og hafa lítið verið endurskoðuð síðan.
Í eignarnámslögum skortir reglur um ákvörðun um eignarnám og þá sérstaklega almenn ákvæði um ákvörðunarvald, eins og tíðkast í eignarnámslögum nágrannalanda okkar. Auk þess er mikið misræmi milli einstakra eignarnámsheimilda, þar sem engin sérstök regla virðist liggja að baki því hver hefur ákvörðunarvald á hendi hverju sinni. Í vissum tilvikum kemur hvergi fram í eignarnámsheimild hver hafi ákvörðunarvaldið. Jafnframt tíðkast að að
eignarnemi sjálfur taki ákvörðun um eignarnám og hefur slíkt fyrirkomulag verið viðhaldið með nýjum vegalögum 80/2007. Í þessari ritgerð hafa verið færð rök fyrir því, að eignarnemi geti ekki verið í senn ákvörðunaraðili og eignarnemi. Sé hæpið að slíkt fyrirkomulag standist hæfisreglur stjórnsýslulaga.
Í eignarnámslögum er hvergi minnst á ákvörðun um eignarnám. Samt sem áður hefur sú
krafa mótast í dómaframkvæmd, að ákvörðun um eignarnám verði að liggja fyrri áður en mál
er tekið til meðferðar hjá matsnefnd eignarnámsbóta, sbr. Hrd. 22. janúar 2009 (247/2008).
Sífellt er verið að þrengja að valdmörkum matsnefndarinnar til að taka mál til meðferðar í samræmi við kröfur stjórnsýslulaga. Er með þessu tryggð aðkoma eignarnámsþola á fyrri stigum máls. Er jafnframt brýnt að landeigendur séu vel upplýstir um gang mála og geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri, allt frá því að hugmynd fæðist um þá starfsemi eða
aðstöðu sem eignarnámsheimild tekur til.
Auk þess sem matsnefnd eignarnámsbóta gerir sífellt meiri kröfur til þess að lögmæt
ákvörðun um eignarnám liggi fyrir áður en hún tekur mál til meðferðar, ganga dómstólar
lengra í að meta hvort ákvörðun um eignarnám standist 72. gr. stjskr. Nú er meiri áhersla lögð á að ákvarðanir og löggjöf um eignarnámi standist meðalhófsreglu, sem grundvallarreglu stjórnskipunarlaga, sbr. dómur Hæstaréttar frá 19. mars 2009 (425/2008) og dómur Hæstaréttar 27. september 2007 (182/2007) sem reifaðir voru. Er þetta jákvæð þróun enda ætti endurskoðunarvald dómstóla ekki að vera takmarkað, nema sérstakar ástæður séu til þess. Á þetta sérstaklega við þegar mál varða stjórnarskrárvarin réttindi manna.
Ef ekki er farið að ströngustu málsmeðferðarreglum við töku ákvörðunar um eignarnám, er réttaröryggi eignarnámsþola skert og undir hælinn lagt hvort hann fái þær bætur sem honum ber. Vönduð eignarnámsákvörðun er því ekki síður mikilvæg heldur en fjárhæð eignarnámsbóta. Það verður að tryggja að skýrari reglur gildi um eignarnámsákvörðun og að samræmis sé gætt í löggjöf sem hana varða. Brýnt er að eignarnámlög og eignarnámsheimildir
haldi í við þróun á sviði dómaframkvæmdar og stjórnsýsluréttar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
pd_fixed.pdf | 599.88 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |