Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/24379
Efni þessarar ritgerðar er að varpa ljósi á þær hindranir og áskoranir sem konur upplifa sig verða fyrir á leið sinni í framkvæmdastjórn innan fjármálageirans. Í gegnum tíðina hafa það verið einna helst karlmenn sem setið hafa í stjórnunarstöðum innan skipulagsheilda. Síðastliðna áratugi hefur þetta tekið breytingum þar sem konur hafa fundið sér leiðir ekki bara í stjórnunarstöður heldur einnig í æðstu stjórnunarstöður. Þó eru karlar enn þann dag í dag oftar en ekki meirihluti stjórnenda. Þegar skoðað er kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum á Íslandi eru karlar þar í áberandi meirihluta. Þessi misskipting kynjahlutfalls í stöðum framkvæmdastjóra er greinileg þegar fjármálageirinn er til skoðunar. Að þessu sögðu telur rannsakandi þessarar rannsóknar því afar áhugavert að fá að heyra frá konum í framkvæmdastjórnum innan fjármálageirans um reynslu þeirra á leið á „toppinn“.
Ritgerð þessi skiptist í tvo hluta, annars vegar fræðilegan hluta og hins vegar rannsóknarhluta. Í fræðilega hlutanum er meðal annars farið yfir stjórnunarstíla, aukna menntun kvenna, konur á vinnumarkaði, ólíkt val kynjanna á starfsframa, kynjakvóta og nokkur hugtök sem notuð hafa verið yfir hindranir kvenna á vinnumarkaðnum.
Í rannsóknarhlutanum verða niðurstöður rannsóknarinnar teknar til skoðunar. Rannsóknin var unnin með eigindlegum rannsóknaraðferðum þar sem tekin voru þrjú hálfopin djúpviðtöl við kvenkyns framkvæmdastjóra innan fjármálageirans. Viðtölin voru unnin með aðferðafræði fyrirbærafræðinnar að leiðarljósi þar sem þau voru skoðuð og þemagreind. Að því loknu voru niðurstöður viðtalanna dregnar saman og var þá unnt að setja saman meginniðurstöður rannsóknarinnar.
Meginniðurstöður þessarar rannsóknar eru þær að íslenskar konur í framkvæmdastjórnum innan fjármálageirans telja að hindranir á vegi íslenskra kvenna séu ekki miklar. Viðmælendur rannsóknarinnar töluðu heilt yfir um að við værum heppin að búa á Íslandi þar sem jafnrétti væri komið langt á leið hér á landi.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Heppin að búa á Íslandi.pdf | 1,62 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |