is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24382

Titill: 
  • Um mennskuna og aðra hætti verunnar. Framlag Baruch Spinoza til róttækrar heimspeki samtímans
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Heimspekingurinn René Descartes (1596-1650) skipti heiminum í tvennt og sagði rúmtakið vera eðlisólíkt hugsuninni. Tvíhyggja í anda Descartes felur í sér mannskilning sem skipar hugsun ofar líkamanum í stigveldi. Í anda kenninga Descartes voru rökhugsun og frjáls vilji talin einkenna mennskuna og litaði það einnig mannlega sýn á efnisheiminn sem var álitinn vélrænn og óvirkur og einungis lúta náttúrulögmálum. Heimspekingurinn Baruch Spinoza (1632-1677) sagði hins vegar alla hluti tilheyra einu og sömu frumverunni og gerði þar ekki greinarmun á anda og efni. Kenningar hans fela í sér nauðhyggju þar sem allt gerist í samræmi við eðli frumverunnar, sem einnig gengur undir nöfnunum Guð eða náttúran. Einhyggja hans felur í sér annars konar sýn á orsakasamhengi náttúrunnar og er mannlegur veruleiki þar ekki undanskilinn. Í ritgerðinni er Siðfræðin eftir Spinoza í forgrunni en hún kom fyrst út 1677 í Hollandi. Í fyrsta hluta eru hugmyndir hans um heildrænt kerfi verunnar útskýrðar og frumspeki hans sett í samhengi við siðfræðikenningar hans. Í öðrum hluta ritgerðarinnar er fjallað um framlag Spinoza í samtímaheimspeki. Þá er fjallað stuttlega um spinozísk áhrif á kenningar marxískra póststrúktúralista á 7. og 8. áratugnum og í því samhengi eru kenningar Spinoza bornar saman við kenningar þýska heimspekingsins G.W.F. Hegel (1770-1831). Að lokum eru kynntar nýlegar kenningar innan pósthúmanisma og femínisma sem sækja innblástur sinn að einhverju leyti í heimspeki Spinoza. Verufræði Spinoza ögrar viðteknum hugmyndum um mennskuna og hafa m.a. ýmsir femínistar, umhverfissinnar, eftirlendufræðingar, nýefnishyggjusinnar og pósthúmanistar tileinkað sér hana í kenningum sínum við að fjalla um og reyna að leysa vandamál nútímans. Spinozísk sýn á efni og eðli verunnar gefur möguleika á annars konar leiðum til að nálgast spurningar um mennskuna og stöðu hennar í náttúrunni, sem og um einstaklinginn í samfélagi við aðra.

Samþykkt: 
  • 10.5.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/24382


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ágrip_katrin.pdf7.94 kBOpinnÁgripPDFSkoða/Opna
BA_Katrin_Lokaútgáfa.pdf673 kBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna
titilsida_katrin.pdf6.53 kBOpinnTitilsíðaPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_Katrín.pdf297.56 kBLokaðurYfirlýsingPDF