Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/24412
Markmið rannsóknarinnar var að kanna stöðu gæðamála hjá íslenskum matvælafyrirtækjum og hvernig íslensk matvælafyrirtæki mátu erfiðleika, ávinning og kostnað sem fylgdi innleiðingu gæðakerfisins HACCP (Hazard Analysis of Critical Control Point). Notast var við megindlega aðferðafræði þar sem lagður var spurningalisti fyrir þátttakendur og lýsandi tölfræði, byggðri á svörum þátttakenda, var ætlað að svara framlögðum rannsóknarspurningum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að 91,5% fyrirtækjanna sem tóku þátt, höfðu innleitt HACCP. Til viðbótar við HACCP höfðu 47,5% fyrirtækjanna innleitt önnur gæðakerfi. Niðurstöðurnar sýndu einnig að marktækur munur var á mati á ávinning og erfiðleikum sem fylgja innleiðingu HACCP, milli fyrirtækja sem einungis höfðu HACCP og þeirra sem innleitt höfðu önnur gæðakerfi til viðbótar. Ekki var marktækur munur á milli þessa sömu hópa með tilliti til mats á kostnaði innleiðingar. Svörun þeirra 8,5% fyrirtækja sem ekki höfðu innleitt HACCP, sýndi að ástæða þess að ekki hafði verið farið í framkvæmd innleiðingar mætti rekja til smægðar fyrirtækjanna og skorts á fræðslu og styrkjum á vegum opinberra aðila.
Út frá niðurstöðunum mætti draga þá ályktun að mat fyrirtækja á ávinningi og erfiðleikum sem fylgja innleiðingu HACCP, geti haft áhrif á ákvörðun þeirra til innleiðingar á öðrum gæðakerfum til viðbótar. Kostnaður innleiðingar HACCP virðist aftur á móti ekki hafa sambærileg áhrif á ákvörðun um frekari innleiðingu. Engu síður virðast fyrirtæki sem ekki hafa innleitt HACCP, leggja kostnað innleiðingar fyrir sig, sökum smægðar sinnar. Að mati rannsakanda gefa niðurstöðurnar til kynna að efla megi rannsóknir og fræðslu um mikilvægi undirbúningsvinnu, áður en farið er í innleiðingu gæðakerfa til að ýta undir aukin ávinning innleiðingar, takmarka erfiðleika hennar og auðvelda minni fyrirtækjum að takast á við hana.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Stefan_loka.pdf | 1,16 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlysing.pdf | 252,11 kB | Opinn | Yfirlýsing | Skoða/Opna |