Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/24418
Hvað er endurvinnsla bifreiða? Á hún eitthvað skylt við þá ímynd sem partasölur hafa í hugum margra. Ekki er ósennilegt að upp í hugann komi mynd af óhrjálegum haugum af ryðguðum bílhræjum sem ekki er fyrir hvern sem er að leita í og ólíklegt að þar finnist eitthvað nothæft í nýlega bíla.
Það er ekki langt síðan þessi mynd var raunhæf lýsing á partasölu, en með breyttum viðhorfum, breyttum kröfum og breyttri löggjöf hafa þessi fyrirtæki þróast í það verða viðurkenndur hluti virðiskeðjunnar og stuðla þannig að betri nýtingu auðlinda.
Í dag eru gerðar kröfur til þessara fyrirtækja um að þau stundi umhverfisvæna starfsemi sem stuðli að endurnotkun og endurvinnslu úr sér genginna ökutækja. Með aðstoð internetsins er auðvelt að leita á skipulega uppsettum og aðgengilegum lager, að þeim varahlut sem vantar. Ábyrgð er tekin á seldum varahlutum, rekjanleiki er tryggður og starfsemin er gæðavottuð. Það sem ekki er selt sem notaður varahlutur er selt til frekari endurvinnslu sem stuðlar að betri nýtingu auðlinda og umhverfisvernd.
Þetta er eðlilegt framhald af þeirri þeirri stefnu sem mótuð hefur verið og á rætur sínar að rekja til mengunarbótareglunnar og reglunnar um framleiðendaábyrgð. Hér á landi hefur Úrvinnslusjóður gegnt mikilvægu hlutverki í að útfæra þessar reglur og hafa eftirlit með þeim aðilum sem sinna þessum verkefnum. Tryggingafélögin hafa líka haft mikil áhrif í þá veru að auka notkun notaðra varahluta og Bílgreinasambandið hefur beitt sér fyrir innleiðingu gæðastaðals sem tekur einnig til söluaðila notaðra varahluta.
Verð á notuðum varahlutum er alla jafna 30% til 50% af verði nýs varahlutar hjá umboði, en verð á hráefnum til endurvinnlsu fylgja sveiflum í heimsmarkaðsverði á þessum afurðum. Endurvinnsluiðnaðurinn er mikilvægur þáttur í virðiskeðjunni, hvort heldur um endurnotkun eða endurvinnslu er að ræða og samfélaginu til hagsbóta í bæði umhverfislegu og efnahagslegu tilliti.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Endurvinnsla_bifreiða_BS_lokaskjal.pdf | 1.12 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |