Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24480
Markmið þessarar ritgerðar var að kanna stöðu orða með viðskeytið -ó í íslenskri málnotkun nú á tímum sem og upphaf og þróun þeirra í málinu. Orðmyndun með -ó er algeng í íslensku talmáli og sum orð mynduð á þennan hátt hafa verið í málinu nokkuð lengi, en lítið hefur verið skrifað um efnið áður. Í þeim tilgangi að varpa ljósi á sögu orðanna í íslensku voru athugaðar nokkrar tilgátur um tilkomu orðmyndunarinnar í málið og leitað að orðum með -ó í mismunandi útgáfum Íslenskrar orðabókar og slangurorðabókum. Til þess að kanna stöðu orðanna í málinu í dag var spurningakönnun lögð fyrir málnotendur. Tilgátan í ritgerðinni var sú að staða orðanna hafi nokkuð breyst með tímanum og notkunarsvið þeirra víkkað.
Helstu niðurstöður voru þær að orðmyndun með -ó virðist eiga rætur að rekja til skólamálsins í Lærða skólanum í Reykjavík í seinni hluta 19. aldar og notkunar latneskra endinga með íslenskum orðum, en seinna gátu ýmisleg atriði eflt orðmyndunina. Í byrjun virtist mörgum þykja orðmyndunin afar vont mál sem ætti að forðast en nú eru orð með
-ó stundum notuð í rituðum textum og sum þeirra hafa orðið jafnvel algengari en upprunalegu orðin sem þau hafa verið dregin af. Í Íslenskri orðabók eru ekki mörg dæmi um orð með -ó, en þau eru fleiri en í fyrri útgáfum orðabókarinnar þar sem fáein orð hafa bæst við með hverri nýrri útgáfu. Orð sem flestum finnst eðlilegt að nota voru aðallega í hópi orða sem lengi hafa verið í málinu og ný orð virðast jafnan hafa þrengra notkunarsvið þó að undantekningar séu til. Þótt orð með -ó séu notuð af öllum aldurshópum virðast flestir tengja þau máli unglinga og barna. Almennt má segja að það sé munur á viðhorfi til notkunar orða með viðskeytinu: sumir nota þau gjarnan og sumum finnst þau yfirleitt ljót og þeir forðast þau.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA_Daria_Lazic.pdf | 1.38 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_Daria.pdf | 317.7 kB | Lokaður | Yfirlýsing |