Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/24496
Sú hugmynd að verðskuldun sé hyrningarsteinn dreifiréttlætis á sér djúpar rætur, bæði í vitund almennings og skrifum heimspekinga. Hún grundvallast á því innsæi að verðlauna eigi verðleika; að fólk eigi að njóta ávaxta eigin erfiðis, uppskera eins og það sáir. Aristóteles taldi þessa hugmynd til sjálfljósra sanninda; þegar dreifa á gæðum hlýtur hver að fá það í sinn hlut sem hann á skilið. Jafnir jafnt og ójafnir ójafnt.
Þrátt fyrir að vera sannfærandi í svipinn hafa verðskuldunarkenningar verið á undanhaldi í síðari tíma umræðu um stjórnmálaheimspeki. Í bók sinni, A Theory of Justice, hafnar John Rawls slíkum kenningum afdráttarlaust. Dreifiréttlætiskenning hans byggir á gagnstæðu viðhorfi til verðskuldunar; að í raun eigi enginn neitt skilið. Það sjónarmið sækir stoð í þá röksemd að verðleikar fólks ráðist alfarið af þáttum sem það sjálft hafði ekki stjórn á. Það skapaði ekki eigið genamengi, valdi hvorki fjölskyldu sína né föðurland. Slík handahófskennd dreifing hæfileika og ytri aðstæðna getur ekki myndað siðferðilegan grunn undir dreifingu réttinda og gæða. Í þessari ritgerð er sjónum beint að andverðskuldunarkenningu Rawls og reynt að varpa ljósi á mikilvægi hennar fyrir kenningu hans um réttlæti, réttlæti sem sanngirni. Leitað er svara við þeirri spurningu hvort unnt sé að skilja dreifiréttlæti án skírskotunar til verðskuldunar og hvort slíkur skilningur geti myndað traustan grunn undir réttlæti sem sanngirni.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
BA Verðskuldun (lok).pdf | 870.42 kB | Open | Heildartexti | View/Open | |
Yfirlýsing_Baldur.pdf | 313.6 kB | Locked | Yfirlýsing |