is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara) Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2457

Titill: 
 • Um frádráttarbæran rekstrarkostnað í skattskilum og misræmi á grundvelli rekstrarforma
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Hugtökin rekstrarkostnaður og gjaldfærsla í rekstri eru notuð um mögulegan frádrátt á móti tekjum af rekstri skattaðila í skattaréttar- og reikningsskilalegum skilningi. Hugtökin eiga rætur sínar að rekja til skilgreiningar í almennum reglum um reikningsskil. Útgjöld í skilningi reikningsskilareglna eru lögð til grundvallar við ákvörðun rekstrarkostnaðar samkvæmt skattalögum, en skattskilum er almennt hagað á þann hátt að gerðar eru einstaka leiðréttingar á rekstraruppgjöri samkvæmt lögum nr. 145/1994, um bókhald, til sæmræmis ákvæða skattalaga. Þannig geta útgjöld talist frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi reikningsskila, en ekki í skilningi skattalaga. Byggir þessi munur á því að tilgangur reikningsskila er að sýna glögga og sanna mynd af rekstrarárangri og efnahag rekstraraðila, en skattauppgjöri er ætlað að sýna útreikninga samkvæmt þeim reglum sem þar er að finna.
  Rekstrarkostnaður er því að meginstefnu kostnaður sem skattaðili leggur á rekstur vegna þess að slík útgjöld gagnast til tekjuöflunar á einn eða annan hátt að mati skattaðila. Þó að kostnaður gagnist skattaðila á einhvern hátt í rekstri hans, er ekki þar með sagt að um frádráttarbæran rekstrarkostnað sé að ræða í skilningi 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda hefur framkvæmd sýnt að þau útgjöld sem skattaðili gjaldfærir í rekstri sínum sem rekstrarkostnað eru ekki alltaf að mati skattyfirvalda sem og dómstóla frádráttarbær frá rekstrartekjum gjaldenda.
  Í 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er talað um þau gjöld sem eiga á árinu að afla tekna í rekstri, sem og tryggja og halda slíkum tekjum við. Frádráttarbærni rekstrarkostnaðar og annarra gjaldfærslu á móti rekstrartekjum byggir á því að skattaðili hafi með höndum atvinnurekstur. Launþegar og aðrir sem hafa ekki með höndum atvinnurekstur geta því ekki dregið útgjöld frá tekjum sínum, sbr. þó 30. gr. framangreindra laga, þótt þeir geti sýnt fram á nauðsyn útgjalda til öflunar tekna, t.d. vegna ferðakostnaðar til vinnu.
  Skattalög byggja á þeirri meginreglu að skattaðili skuli greiða skatt af öllum tekjum sínum, sbr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Heimild að draga rekstrarkostnað frá tekjum skattaðila er því undantekning frá þeirri meginreglu tekjuskattslaga. Slíkar undantekningar verður almennt að skýra þröngt, enda verður skattlagningu ekki breytt eða hún afnumin nema með lögum, sbr. 40. og 1. mgr. 77. gr. Stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1940. Verður því ekki unnt að túlka slíkt ákvæði rúmt eða beita lögjöfnun. Þröng túlkun eða túlkun samkvæmt orðanna hljóðan er nærtækust og yrði því að telja eðlilegt að gagnálykta út frá ákvæðinu, að sé kostnaður ekki frádráttarbær samkvæmt slíkri túlkun þá er ekki heimilt að draga slíkan kostnað frá tekjum.
  Af þessu leiðir að skattaðila ber að sýna fram á að skilyrðum undantekningarákvæðisins sé fullnægt og þar sem um heimildarákvæði er að ræða þá er valkvætt hvort skattaðili nýti sér þá frádráttarheimild sem það hefur að geyma eða ekki. Ef skattaðili hyggst nýta sér framangreinda heimild ber honum að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt, þ.m.t. að fyrir liggi gögn sem beri tilefni útgjalda með sér á fullnægjandi hátt
  Þó reglur vegna aðila í atvinnurekstri og sjálfstætt starfandi séu ekki að öllu leyti sambærilegar, þá er viðvarandi misræmi á grundvelli rekstrarforms. Úrskurðir og framkvæmd skattalaga gefa þá vísbendingu um að hið meinta misræmi einkorðist ekki við rekstrarform, heldur er einnig vart við misræmi á grundvelli umsvifa og eignarhalds. Þetta á aðallega við um minni félög, s.s. einkahlutafélög, sameignarfélög og samlagsfélög, þegar eigandi félags er í sambærilegri stöðu og ef um sjálfstæðan rekstur væri að ræða.
  Þrátt fyrir að um misræmi sé að ræða verður að telja að slíkt byggi að meginstefnu á eðlilegum grundvelli, sérstaklega þegar litið er til þeirrar nálægðar sem er á milli atvinnureksturs sjálfstætt starfandi aðila og eiganda rekstrar.

Samþykkt: 
 • 6.5.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/2457


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
1_fixed.pdf876.74 kBLokaðurHeildartextiPDF