Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/24625
Keppendur í fitness og vaxtarrækt leggja mikið á sig fyrir keppni þar sem þeir breyta verulega matarvenjum sínum ásamt því að einangra sig frá fjölskyldu og vinum til þess eins að gjörbreyta líkama sínum. Raunin er sú að sumir keppendur upplifa depurð eftir keppni og keppnisferlið. Markmið ritgerðarinnar var að rannsaka og öðlast betri skilning á upplifun íslenskra kvenkeppenda af því að keppa í fitness. Áhersla var lögð á að skoða upplifun þeirra af helstu þáttum sem tengjast því að keppa í fitness sem og upplifun þeirra á skynjaðri ímynd sinni, annars vegar út frá þeim sjálfum og hins vegar út frá samfélaginu. Leitast var við að varpa ljósi á hvaða aðferðir keppendur nota til að fjármagna kostnaðinn við að keppa í fitness. Þessi rannsókn var gerð með eigindlegum aðferðum þar sem stuðst var við fyrirbærafræðilega nálgun. Tekin voru 11 hálfopin djúpviðtöl við kvenkeppendur í fitness sem höfðu keppt að minnsta kosti tvisvar sinnum á síðustu sex árum. Upp úr viðtölunum spruttu sex þemu; að sigra sjálfa sig, langar að hrynja í gólfið, ég sá bara ógeðslega feita manneskju, erfiðast að loka sig af félagslega, þetta á ekki að vera svona óheilbrigt og þetta er ótrúlega dýrt. Helstu niðurstöður leiddu í ljós að viðmælendur höfðu í heildina jákvæða upplifun af því að keppa í fitness þrátt fyrir að nokkrir hefðu haft slæma reynslu af því. Líkamlegt og andlegt álag var mikið og upplifðu viðmælendur mikla pressu frá öðrum á að líta stöðugt vel út. Margir viðmælendur upplifðu brenglaða sjálfsmynd eftir að hafa byrjað að keppa í fitness þar sem þeim fannst þeir oft vera feitir þrátt fyrir að vera í góðu formi. Flestir viðmælendur höfðu gert breytingar á lífsstíl sínum, sérstaklega í undirbúningi fyrir mót og varð það oft til þess að þeir einangruðust félagslega sem olli þeim vanlíðan. Langflestir viðmælendur höfðu upplifað þunglyndi eftir að hafa keppt í fitness og höfðu nokkrir lent í ofþjálfun, sem þeir töldu óheilbrigt og höfðu ekki treyst sér til þess að keppa aftur. Niðurstöður leiddu einnig í ljós að það væri dýrt að keppa í fitness og mikilvægt væri að vera með góða styrktaraðila, en flestir viðmælendur huguðu ekki mikið að markaðssetningu þar sem þeir höfðu ekki hugsað sér að fara út í atvinnumennsku og töldu þetta einungis vera áhugamál.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hugurinn skiptir mestu máli.pdf | 744,43 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |