Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24651
Inngangur: Sjúklingar með brátt kransæðaheilkenni eru misleitur hópur með mismunandi áhættu á endurteknum hjartaáföllum og dauða. GRACE ACS risk score áhættureiknirinn var hannaður til að spá fyrir um horfur sjúklinga eftir greiningu á bráðu kransæðaheilkenni. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta hvort áhættustigun með GRACE skori komi að gagni við að spá fyrir um dauðsföll og endurtekin hjartaáföll hjá íslenskum sjúklingum sem greinast með brátt kransæðaheilkenni.
Efni og aðferðir: Rannsóknin tók til allra þeirra sem lögðust inn á Landspítalann með brátt kransæðaheilkenni frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2013. Úr Sögukerfi Landspítala voru sóttar þær breytur sem notaðar eru til útreikninga á GRACE skori. GRACE skor og áhættumat fyrir 30 daga lifun, eins árs lifun og eins árs lifun án hjartaáfalla var reiknað út fyrir alla þátttakendur. Afdrif sjúklinga með tilliti til endurtekinna hjartaáfalla og dauða voru að lokum könnuð. Lífshorfur voru reiknaðar með aðferð Kaplan-Meier og framkvæmd voru logrank próf til að bera saman lifunarkúrfur. Útreiknað GRACE áhættumat og raunveruleg áhætta þýðisins voru borin saman og ROC kúrfur teiknaðar til að meta næmni og sértækni áhættumatsins.
Niðurstöður: Þátttakendur voru 666, 189 konur og 477 karlar. Meðalaldur þátttakenda var 68,0 ±13,1 ár. 212 (31,2%) sjúklingar lögðust inn vegna hvikular hjartaangar, 293 (44,0%) vegna NSTEMI og 161 (24,8%) vegna STEMI. 30 daga lifun þýðisins var 94,7%, eins árs lifun 89,8% og eins árs lifun án hjartaáfalla 78,5%. Marktækur munur var á lifun kynja (p= 9,1*10-4) og lifun sykursjúkra (p=3,7*10-4) til eins árs og marktækurmunur á lifun án hjartaáfalls var innan eins árs meðal sömu hópa (p=3*10-2 og p=1,7*10-4). Þegar útreiknað GRACE áhættumat var borið saman við hlutfall raunverulegra dauðsfalla og endurtekinna hjartaáfalla lentu raunverulegu gildin í flestum tilfellum innan marka. Þegar næmni og sértækni GRACE áhættureiknisins var athuguð var AUC=0.9156 (0.8785-0.9528) fyrir 30 daga lifunarmat, AUC=0,8925 (0.8613-0.9236) fyrir eins árs lifunarmat og AUC=0,7083 (0.6553-0.7612) fyrir eins árs lifunarmat án hjartaáfalla.
Ályktanir: Niðurstöður gefa til kynna að áhættumat GRACE skorsins sé almennt gott á íslensku þýði. Áhættureiknirinn reyndist sannspár um áhættumat á horfum sjúklinga með tilliti til dauða innan 30 daga og eins ár. Hins vegar vanmetur áhættureiknirinn að hluta áhættu á dauða eða endurteknu hjartaáfalli innan eins árs. Þrátt fyrir það má áætla að GRACE áhættureiknirinn myndi koma að gagni við að spá fyrir um afdrif íslenskra sjúklinga sem greinast með brátt kransæðaheilkenni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ritgerd_final_ErlaThoris.pdf | 3.92 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |