is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/24652

Titill: 
  • Áhætta á blóðsegum hjá sjúklingum með non-Hodgkin's eitilfrumukrabbamein: Lýðgrunduð rannsókn
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Eitilfrumukrabbamein eru hópur illkynja meina sem eiga upptök sín í eitlum og eitilvef. Þau skiptast í non-Hodgkin's (NHL) og Hodgkin's eitilfrumukrabbamein. Flest NHL eiga uppruna sinn í B- eða T-eitilfrumum og eru þau um 3% krabbameina á Íslandi. Sum þeirra vaxa hratt og eru ágeng, en önnur vaxa hægt og þarf jafnvel ekki að meðhöndla því sjúklingar geta verið einkennalausir í fjölda ára. Vel er þekkt að krabbamein auki áhættu á blóðsegum, sérstaklega bláæðasegum, en lítið er vitað um segahneigð sjúklinga með NHL.
    Markmið rannsóknarinnar er að meta áhættu á blóðsegum hjá sjúklingum með NHL miðað við samanburðarhóp og athuga hvort breyting hafi orðið á áhættunni undanfarin ár.
    Efniviður og aðferðir: Þýði rannsóknarinnar samanstóð af einstaklingum sem greindir höfðu verið með NHL í Svíþjóð á árunum 1980-2013 og allt að fjórum viðmiðum sem pöruð voru við hvern NHL sjúkling á aldri og kyni (n=156.031, tilfelli=40.354, viðmið=115.677). Einungis var metin áhætta á fyrsta blóðsega og þeim blóðsegum sem áttu sér stað síðar en 30 dögum fyrir NHL greiningu tilfellis. Kaplan Meier gröf voru notuð til að meta áhættu á blóðsegum og logrank próf var framkvæmt til að meta marktækni. Notast var við Cox aðhvarfsgreiningarlíkan til að fá áhættuhlutföll (e. hazard ratio; HR) leiðrétt fyrir greiningaraldri, kyni, greiningarári og fyrri sögu um blóðsega. Forritið R var notað fyrir tölfræðilega úrvinnslu.
    Niðurstöður: NHL sjúklingar höfðu marktækt aukna áhættu á að fá blóðsega miðað við samanburðarhóp (HR: 1,58; 95% ÖB: 1,53-1,60). Áhættan var marktækt meiri fyrir alla þrjá undirflokka blóðsega; djúpbláæðasega (HR: 3,11; 95% ÖB: 2,93-3,31), lungnablóðrek (HR:3,16; 95% ÖB:2,95-3,39) og slagæðasega (HR:1,19; 95% ÖB: 1,16-1,23). Áhætta á blóðsegum minnkaði marktækt hjá viðmiðunarhóp milli tímabilanna 1980-1989 og 2000-2013 (HR: 0,87 ; 95% ÖB: 0,85-0,90) en áhætta á blóðsegum breyttist ekki marktækt á rannsóknartímabilinu hjá NHL tilfellum. Marktækt aukin áhætta var á blóðsegum fyrir NHL sjúklinga óháð fyrri sögu um blóðsega. Nýgengi blóðsega hjá NHL sjúklingum byrjaði að aukast miðað við samanburðarhóp um fimm mánuðum fyrir greiningu NHL, og náði hámarki mánuði fyrir greiningu. Áhættan hélst aukin út fyrsta árið eftir greiningu.
    Ályktanir: Í þessari rannsókn sýndum við fram á að aukin áhætta er fyrir sjúklinga með NHL að greinast með blóðsega miðað við samanburðarhóp. Rúmlega þrefalt aukin áhætta er fyrir djúpbláæðasega og lungnablóðrek, en einnig var marktækt aukin áhætta á slagæðasegum þegar leiðrétt hafði verið fyrir mögulegum bjögunarþáttum. Af þessari rannsókn mætti draga þá ályktun að við greiningu á NHL aukist segahneigð. Nokkrir þættir gætu átt þar hlut að máli, þ.á.m. lyfjameðferð og veikindi í kjölfar hennar sem og sjúkdómurinn sjálfur. Miðað við að nýgengisaukningin hafi verið mest fyrir og í kringum greiningu NHL hjá tilfellum mætti draga þá ályktun að æxlið sjálft hafi mikil áhrif á segahneigð þessara sjúklinga.

Samþykkt: 
  • 13.5.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/24652


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Anna María Birgisdóttir - BS ritgerð.pdf1.06 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna