Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/24654
Inngangur: Við misræmi á milli blóðflokka móður og fósturs getur móðirin myndað rauðkornamótefni sem geta orsakað fóstur- og nýburablóðrof (FNB). Árið 1969 hófst á Íslandi fyrirbyggjandi gjöf á RhD immunoglóbúlíni fyrir RhD neikvæðar konur eftir fæðingu RhD jákvæðs nýbura (Rhesusvarnir) sem dró verulega úr tíðni anti-D mótefna í tengslum við meðgöngu. Hins vegar hafa mótefni gegn öðrum mótefnavökum orðið hlutfallslega algengari. Rannsóknin felst í samantekt á tíðni og sértæki rauðkornamótefna í meðgöngu árin 1996-2015 og greiningum á afdrifum nýbura.
Efni og aðferðir: Upplýsingar um allar konur sem greinst hafa í Blóðbankanum með mótefni á meðgöngu frá árinu 1996 eru varðveittar í gagnagrunni Blóðbankans. Gögn um fæðingar kvenna með mótefni í meðgöngu voru sótt í fæðingaskrá og upplýsingar um afdrif nýbura voru fengnar úr sjúkraskrám Landspítala og gagnagrunni vökudeildar Landspítala. Unnið var með gögnin í Excel og forritinu R.
Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu 1996-2015 voru skráðar 87.437 fæðingar á Íslandi. Í rannsókninni voru 1203 tilfelli mótefnamyndunar greind í 912 meðgöngum og 648 konum. Mótefni greindust í 1,03% af heildarfjölda fæðinga á Íslandi. Algengustu mótefnin voru anti-M, í 233 meðgöngum (25,6%), anti-E í 228 (25%), anti-D í 150 (16,4%), anti-Kell í 98 (10,7%) og anti-c í 93 meðgöngum (10,2%). Í 73,2% meðgangna greindist einungis eitt mótefni, í 22,5% tilfella greindust tvö mótefni en í öðrum tilfellum þrjú til fjögur mótefni. Í 487 meðgöngum (53,3%) voru klínískt mikilvæg mótefni reglulega títruð á meðgöngunni; oftast anti-D, eða í 133 meðgöngum (27,3%), anti-E í 125 (25,6%), anti-Kell í 83 (17,0%) og anti-c í 74 meðgöngum (15,2%). Í meðgöngum með klínískt mikilvæg mótefni voru fleiri fjölbyrjur (90% vs 71%, p<0,0001), meðgöngulengd var styttri (38,5 vs 39,4 vikur, p<0,0001) og færri börn fæddust heilbrigð (57% vs. 74%, p<0,0001). Í meðgöngum með anti-D mótefni var meðgöngulengd styttri (37,7 vs. 38,8 vikur, p=0,0004), minni líkur á að barn fæddist heilbrigt (31% vs. 66%, p<0,0001) og lægra 5 mínútna Apgar skor (8,0 vs. 9,3, p=0,04) miðað við meðgöngur með önnur klínískt mikilvæg mótefni. Á tímabilinu þurftu 80 nýburar (8,8%) ljósameðferð vegna FNB, af þeim höfðu 31 anti-D, 26 anti-E, 16 anti-c og 10 anti-C. Níu nýburar (0,9%) fengu blóðgjöf, þar af höfðu sjö anti-D, einn anti-c/-E og einn anti-E. Alls þurftu 17 nýburar (1,9%) blóðskipti eftir fæðingu, þar af voru 13 tilfelli vegna anti-D og fjögur vegna anti-c. Í þremur meðgöngum (0,3%) fór fram blóðgjöf til fósturs um naflastreng, í öllum tilfellum var um anti-D að ræða. Í hópinum varð eitt fósturlát (anti-D), fjórar andvana fæðingar, þar af tvær tengdar anti-Kell mótefnum.
Ályktanir: Rannsóknin gefur mynd af greiningu rauðkornamótefna á Íslandi í þunguðum konum yfir 20 ára tímabil. Þrátt fyrir Rhesusvarnir voru anti-D mótefni mikilvægasta orsök alvarlegs FNB, þó tíðni anti-D væri aðeins 12,4% af öllum greindum mótefnum. Þörf er á að efla enn frekar Rhesusvarnir á Íslandi með því að innleiða fyrirbyggjandi gjöf RhD immunóglóbúlíns á meðgöngu fyrir RhD neikvæðar konur.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Greining rauðkornamótefna kvenna á Íslandi árin 1996-2015. Áhrif á meðgöngu og afdrif nýbura. Gunnar Bollason 2016.pdf | 1.02 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |