is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24656

Titill: 
 • Astmi og ofnæmi: Frá fæðingu til fullorðinsára
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Ofnæmissjúkdómarnir exem, astmi og ofnæmiskvef eru algeng heilsufarsvandamál. Algengi þeirra hefur aukist mikið á síðustu áratugum og breytileiki milli landa undirstrikar áhrif umhverfis og erfða. Í dag er talið að 30-40% fólks þjáist af einum eða fleiri ofnæmissjúkdómum. Markmið rannsóknarinnar var að meta breytingar og algengi á einkennum exems, astma og ofnæmiskvefs hjá hópi einstaklinga sem fylgt hefur verið eftir í tæp 30 ár. Skoðuð voru tengsl ofnæmissjúkdómanna innbyrðis og fjölskyldusaga, þar á meðal ofnæmiseinkenni hjá börnum þátttakenda.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin er ferilrannsókn þar sem úrtakshópur 179 einstaklinga fædd árið 1987 hefur verið fylgt eftir í tæpa þrjá áratugi. Þau voru skoðuð með tilliti til ofnæmissjúkdóma á aldrinum tveggja, fjögurra, átta, 15 ára, 21 árs og nú 29 ára. Sjúkdómarnir exem, astmi og ofnæmiskvef voru greindir með stöðluðum spurningalistum, líkamsskoðun og húðprófum. Einnig var aflað upplýsingum um lyfjanotkun, ofnæmissjúkdóma í fjölskyldu og umhverfisþætti.
  Niðurstöður: Af 112 þátttakendum á aldrinum 29 ára voru 56 (50%) með einn eða fleiri ofnæmissjúkdóma. Samkvæmt stigun höfðu flestir þátttakendur fremur vægan sjúkdóm. Algengi exems var 31% við tveggja ára aldur, lækkaði marktækt í 8% við 21 árs aldur og var nú 14%. Algengi astma var hæst 28% við fjögurra ára aldur en lækkaði í 13% við átta ára aldur og breyttist lítið að 21 árs aldri. Nú greindust 23% með astma, þar af helmingur eingöngu með áreynsluastma. Ekkert barn greindist með ofnæmiskvef við tveggja ára aldur en algengið hækkaði í 33% við 21 árs aldur. Alls voru nú 30% þátttakenda greind með ofnæmiskvef. Marktæk tengsl voru milli ofnæmiskvefs og astma (p=0,006) en ekki voru marktæk tengsl exems við ofnæmiskvef (p=0,08) eða astma (p=0,5). Þátttakendur með jákvæða fjölskyldusögu voru marktækt líklegri til að vera með astma (p=0,03) eða ofnæmiskvef (p=0,02). Þriðjungur var með jákvætt húðpróf, oftast fyrir grasi (n=27) og köttum (n=23). Af þeim þátttakendum sem áttu barn með ofnæmissjúkdóm var tæplega helmingur með ofnæmissjúkdóm sjálfir.
  Ályktanir: Niðurstöðurnar staðfesta að ofnæmissjúkdómar eru algengir á Íslandi bæði hjá börnum og fullorðnum sem er sambærilegt við nágrannalönd. Þróun exems hjá yngri aldurshópnum yfir í ofnæmiskvef síðar er einkennandi sem er einnig sambærilegt við aðrar rannsóknir. Aukið algengi astma frá 21 árs aldri undirstrikar mikilvægi þess að fylgjast með þróun þessara sjúkdóma, bæði með tilliti til aldurs og ytri umhverfisþátta. Langtímarannsóknir á borð við þessa eru mikilvægar til að auka þekkingu á þróun ofnæmissjúkdóma en með slíkum rannsóknum hefur meðferð og horfur batnað verulega.

Samþykkt: 
 • 13.5.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/24656


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_ArndísRósStefánsdóttir2016.pdf1.65 MBLokaður til...13.05.2020HeildartextiPDF