is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24661

Titill: 
 • Sarkmein í stoðkerfi mjúkvef á Íslandi 1986-2015
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Sarkmein er heiti yfir krabbamein í bandvef, beinum og vöðvum og telja um 1-2% allra illkynja æxla sem greinast á Íslandi og á heimsvísu. Sarkmein eiga það flest sameiginlegt að vera upprunnin úr miðkímlagi í fósturvef og eru almennt flokkuð í tvo flokka, mjúkvefjasarkmein og beinsarkmein, en greinast svo enn frekar eftir yfir 70 mismunandi vefjagerðum. Sérstakt meðferðarteymi um sarkmein á Íslandi(IceSG) hefur verið starfrækt á landspítalanum síðan árið 2009 með það að markmiði að bæta og samræma meðferð sjúklinga með sarkmein á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna nýgengi, þróun greiningar, meðferðar og lifitíma sarkmeinasjúklinga á Íslandi á árunum 1986-2015.
  Rannsóknin er afturskyggn og tók til allra tilfella frá Krabbameinsskrá Íslands sem mögulega gátu flokkast til sarkmeina á árunum 1986-2015. Skráðar voru eftirfarandi breytur: Kennitala, aldur við greiningu, kyn, greiningaraðferð (dánarvottorð, klínísk greining, röntgen/skönnun, efnafræðileg greining, fínnálarsýni, grófnálarsýni á meinvarpi og grófnálarsýni á frumæxli), númer æxlis, ár greiningar, ICD-10 staðsetning æxlis, meingerð æxlis, dánardagur og meðferð. Notast var við skilgreiningu skandinavíska sarkmeina hópsins (Scandinavian sarcoma group, SSG) og Krabbameinsskrá Íslands við að ákvarða hvaða vefjagerðir sarkmeina skyldi notast við í rannsókninni. Nýgengi var reiknað útfrá alþjóðlegum staðli. Notast var við tölfræðiforritið R og Excel við útreikninga auk hönnun á töflum og gröfum.
  Aldursstaðlað nýgengi mjúkvefjasarkmeina á Íslandi á tímabilinu 1986-2015 var 2,33 hjá körlum og 1,93 hjá konum á hverja 100.000 einstaklinga. Aldursstaðlað nýgengi beinsarkmeina var síðan 1,26 hjá körlum og 0,84 hjá konum á hverja 100.000 einstaklinga. Á tímabilinu greindust 233 mjúkvefjasarkmein og 92 beinsarkmein á Íslandi. Af mjúkvefjasarkmeinum voru liposarcoma algengust (24,5%), þá malignant fibrous histiocytoma (17,6%) og síðan leiomyosarcoma (15,9%). Af beinsarkmeinum voru chondrosarcoma algengust (47%), þá osteosarcoma (35%) og síðan Ewing sarcoma (18%). 5 ára lifun sjúklinga með mjúkvefjasarkmein var 63% og 69% hjá sjúklingum með beinsarkmein og ka/ko hlutfallið 1,49. Byrjað var með segulómrannsókn á tímabilinu, fínnálarsýnataka er nánast horfin og grófnálarsýnataka tekin yfir. Ekki reyndist mögulegt að kanna breytingar í meðferð við sarkmeinum vegna skorts á upplýsingum í gagnagrunni landspítalans.
  Nýgengis- og lifunartölur eru svipaðar þeim sem sjást á Norðurlöndunum. Þróun á greiningu sarkmeina er einnig sambærileg því sem sést á Norðurlöndum, þar sem fínnálarsýnataka er á undanhaldi og grófnálarsýnataka að taka við. Með niðurstöðum okkar gefst kostur á að koma grunnupplýsingum í þann skráningargrunn sem hefur verið í gangi á landspítalanum frá 2009 og má þannig nota til gæðaeftirlits í framtíðinni og gera þannig raunhæfan samanburð við aðrar rannsóknir frá Skandinavíu.

Samþykkt: 
 • 17.5.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/24661


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sarkmein í stoðkerfi á Íslandi 1986-2015.pdf1.46 MBLokaður til...23.05.2116HeildartextiPDF