is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24663

Titill: 
 • Lifrarfrumukrabbamein á Íslandi 1998-2013
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Lifrarfrumukrabbamein er krabbamein sem á uppruna í lifrarfrumum. Nýgengi HCC er mjög misjafnt eftir landsvæðum og er hæst þar sem lifrarbólga B er landlægur sjúkdómur. Nýgengi á Vesturlöndum hefur aukist á undanförnum árum aðallega vegna lifrarbólgu C faraldurs en einnig vegna aukinnar áfengisneyslu og aukinnar tíðni áhættuþátta fyrir fitulifrarkvilla án áfengismisnotkunar. Fyrri rannsóknir á Íslandi sýndu að nýgengi á tímabilinu 1984-1998 var u.þ.b. 1 tilfelli á 100.000 á ári sem er með því lægsta sem þekktist í heiminum. Algengir áhættuþættir á Íslandi hafa verið áfengisskorpulifur og erfðasjúkdómurinn járnhleðslukvilli. Í ljósi lifrarbólgu C faraldurs á Íslandi í lok níunda áratugarins ásamt aukinni áfengisneyslu Íslendinga og aukinnar tíðni áhættuþátta fitulifrarkvilla er markmið rannsóknarinnar að kanna breytingar á nýgengi lifrarfrumukrabbameins, áhættuþáttum þess og lifun sjúklinganna á Íslandi á tímabilinu 1998-2013.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin tók til allra sjúklinga sem greindust með lifrarfrumukrabbamein á Íslandi á tímabilinu 1998-2013. Leitað var að illkynja æxlum í lifur Krabbameinsskrá Íslands, skrám meinafræðideildar LSH og sjúkraskrám LSH og FSA og ekki meðtalin önnur æxli í lifur svo sem gallvegakrabbamein eða meinvörp. Upplýsingum um áhættuþætti, greiningardag og lifun var safnað ásamt öðrum þáttum. Ef greiningarskilmerki efnaskiptavillu voru uppfyllt voru taldar miklar líkur á að fitulifrarkvilli án áfengis væri til staðar. Í vafatilfellum voru vefjasýni lituð með mótefnalituninni HepPar1 en sýni voru fengin hjá lífsýnasöfnum meinafræðideilda LSH og FSA. Tilviljunarfundir í krufningum voru ekki hafðir með í nýgengistölum, aldursútreikningum og lifun.
  Niðurstöður: Alls greindust 98 manns með lifrarfrumukrabbamein á tímabilinu, 83 karlar og 15 konur. Meðalaldur karla við greiningu var 70 ár og kvenna 68 ár. Aldursstaðlað nýgengi á tímabilinu var 1,2 á 100.000 (nýgengi karla 2,2 og kvenna 0,4). Nýgengi meðal karla hækkaði marktækt á tímabilinu (úr 1,3 í 2,9). Skorpulifur höfðu 45 (46%) og voru algengustu áhættuþættir skorpulifrar misnotkun áfengis (22%), lifrarbólga C (20%) og fitulifrarkvilli/efnaskiptavilla (20%). Algengustu áhættuþættir lifrarfrumukrabbameins í heild voru fitulifrarkvilli/efnaskiptavilla (22%), misnotkun áfengis (16%), lifrarbólga C (12%) og járnhleðslukvilli (10%). Fimm ára sjúkdómssértæk lifun karla var 22% og kvenna 29% en ekki var marktækur munur þar á milli né marktæk bætt lifun yfir tímabilið (í fyrri rannsókn fyrir tímabilið 1984-1998 var fimm ára lifun karla 14% og kvenna 7%).
  Ályktanir: Nýgengi lifrarfrumukrabbameins jókst meðal karla en ekki meðal kvenna á tímabilinu. Aðeins helmingur sjúklinga er með undirliggjandi skorpulifur sem er mun lægra en í nágrannalöndunum en áhættuþættir lifrarfrumukrabbameins virðast vera þeir sömu og annars staðar. Talsverðar breytingar hafa orðið á áhættuþáttum en efnaskiptavilla, sem í fyrri rannsókn var ekki talinn vera sterkur áhættuþáttur lifrarfrumukrabbameins, er nú einn algengasti áhættuþátturinn auk lifrarbólgu C sem reynist nýr áhættuþáttur á Íslandi. Fimm ára lifun beggja kynja hefur batnað miðað við fyrri rannsókn á Íslandi.

Samþykkt: 
 • 17.5.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/24663


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Bjarki Sigurðsson.pdf1.24 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna