is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/24683

Titill: 
 • Bráðar garnasýkingar á Barnaspítala Hringsins 2010-2015
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Bráðar garnasýkingar barna eru algengar á heimsvísu. Veirur eru algengasta orsök garnasýkinga, sér í lagi rótaveirur. Ung börn, 6-24 mánaða, eru í mestri hættu á sýkingu. Tvö bóluefni gegn rótaveirum eru á markaði og hafa reynst vel. Faraldsfræði þessara sýkinga á Íslandi er lítt þekkt.
  Markmið: Meta faraldsfræði bráðra garnasýkinga barna á Íslandi árin 2010-2015, aldursdreifingu og algengustu veirur. Meta byrði bráðra garnasýkinga á Barnaspítala Hringsins, fjölda koma og lengd veru.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær yfir komur barna á Barnaspítala Hringsins sem voru greind með bráða garnasýkingu á tímabilinu 2010-2015. Tveir gagnagrunnar, annar frá sjúklingabókhaldi Landspítalans og hinn frá Veirufræðideildinni, samkeyrðir og helstu breytum safnað.
  Niðurstöður: Komur vegna bráðra garnasýkinga á Barnaspítala Hringsins voru 2.674 á tímabilinu. Jákvæð saursýni voru 174 talsins (6,5% koma). Meirihluti tilfella var meðal 0-24 mánaða gamalla barna (51,3%), einkum áberandi meðal barna með jákvæð saursýni (74,5%). Flestar komur áttu sér stað í október til apríl (69,1%; 93,1% í hópnum með jákvæð saursýni). Fjöldi barna var 2.473 og fjöldi endurkomutilfella því 201 (7,5% tilfella). Tilfelli sem leiddu til innlagna voru 88 (3,29% tilfella) í öllum hópnum en 55 meðal barna með jákvæð saursýni (29,89% tilfella). Um fimmtungur barnanna var meðhöndlaður með vökvagjöf (19,71%), meirihluti í æð (69,07%). Bæði hlutföll voru hærri meðal barna með jákvæð saursýni (29,89% og 86,54%). Erfðaefni rótaveira greindist í 95 jákvæðra saursýna (51,6%) en í öllum jákvæðum saursýnum á tímabilinu óháð komu á Barnaspítala Hringsins var hlutfallið 29,7%.
  Umræður: Niðurstöður samsvara sig við tölfræði nágrannalanda. Árstíðasveiflur og aldursdreifingin er áþekk. Innlagnir virðast sjaldgæfari en þekkt hlutföll erlendis eru 8-12%. Skráning bendir til að vökvagjöf sé einkum gefin í æð en rannsóknir síðustu ára hafa fremur stutt vökvagjöf um meltingarveg. Í Evrópu er hlutdeild rótaveirusýkinga í bráðum garnasýkingum 28-52%. Samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar eru hlutföllin álíka hérlendis. Sennilega leiða þó aðeins alvarlegustu tilfellin til saursýnatöku. Niðurstöður saursýna einar og sér geta því falið í sér bæði of- og vanmat á hlutdeild rótaveirusýkinga í bráðum garnasýkingum. Þannig standa vægari rótaveirusýkingar þar utan en á hinn bóginn er þekkt að rótaveirusýkingar valdi oftar alvarlegri tilfellum bráðra garnasýkinga og veljist því frekar í saursýnatökur. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um fjölda innsendra saursýna neikvæð fyrir öllum veirum. Rannsókn þessi fjallar nær eingöngu um tilfelli bráðra garnasýkinga sem leiddu til komu á Barnaspítala Hringsins. Nauðsynlegt er að kanna komur á heilsugæslur og aðrar meðferðarstofnanir eigi að fá heildarmynd af sjúkdómsbyrði og hlutdeild ólíkra sýkingarvalda í bráðum garnasýkingum á Íslandi. Út frá þeim lýðheilsufræðilegu sjónarmiðum væri ákjósanlegt að bæta skráningu greininga í sjúkraskrár og auka saursýnatökur, a.m.k. tímabundið til að meta raunverulega byrði rótaveira á Íslandi. Einkum er það mikilvægt til mats á hvort taka eigi upp bóluefni gegn rótaveirum á Íslandi. Þá þarf einnig að framkvæma kostnaðar- og ábatagreiningu hérlendis til ákvörðunar um hvort taka eigi upp bóluefnin fyrir öll börn.

Samþykkt: 
 • 18.5.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/24683


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_age_bsh_anton-valur-jonsson.pdf3.04 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
SKEMMAN-2.pdf606.71 kBLokaðurYfirlýsingPDF