is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2471

Titill: 
 • Lagaumhverfi fjölmiðla á Íslandi
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Lagaumhverfi fjölmiðla á Íslandi er býsna víðfeðmt og ef til vill flókið að því leyti, að um það fjalla mörg lög. Verkefni tengd fjölmiðlum heyra undir fjögur ráðuneyti og er eftirlit með þeim falið þremur aðilum. Ekki er hægt að segja að löggjafinn hafi vanrækt þetta svið, því flest eru lögin sem fjölmiðla varða nýleg, en þau eru ekki heildstæð. Fjölmiðlalögin, sem svo voru kölluð, nr. 107/2004, er numin voru úr gildi í júlí árið 2004, voru ekki heildarlög, einungis breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum. Fjölmiðlafrumvarp er lagt var fram að vori og hausti árið 2006 var ekki heldur frumvarp til heildarlaga um starfsemi fjölmiðla. Því var ætlað að breyta og bæta við tilteknum atriðum í útvarpslögum, prentlögum og samkeppnislögum og bregðast við ákveðnu ástandi á fjölmiðlamarkaði, en ekki að móta fjölmiðlum heildstætt lagaumhverfi.
  Í ritgerð þessari er farið yfir ákvæði stjórnarskrár, lög um prentrétt og útvarpslög, lög um Ríkisútvarpið ohf., löggjöf ESB um hljóð- og myndmiðlun, er Ísland hefur innleitt vegna skuldbindinga sinna á grundvelli EES-samningsins, sem og aðrar þjóðréttarskuldbindingar, samkeppnislög, ýmis ákvæði er varða meiðyrði, friðhelgi einkalífs, þagnarskyldu, upplýsingalög og persónuvernd, lög um fjarskipti, Póst- og fjarskiptastofnun og fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Auk þess er fjallað um siða- og starfsreglur fjölmiðlamanna, sérstakur gaumur gefinn mismunandi ábyrgðarreglum prentlaga og útvarpslaga og hugað að lagaumhverfi fjölmiðla annars staðar á Norðurlöndunum.
  Markmiðið er að reyna að varpa ljósi á heildarmynd þeirrar löggjafar sem gildir um íslenska fjölmiðla og kanna hvernig má stuðla að fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði. Litið er á samþjöppun sem ógn við ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla og það lýðræðislega hlutverk sem þeim er ætlað að gegna.
  Niðurstaðan er sú að heildstæðrar löggjafar sé þörf, er tæki til allra þátta er varða fjölmiðla, bæði hið ytra og hið innra. Í slíkri löggjöf yrði að finna reglur um úthlutanir og innkallanir leyfa og tíðna, eignarhald og eftirlit með því, skyldur fjölmiðlafyrirtækja og réttindi, reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði og ábyrgð á efni fjölmiðla, sem og viðurlagaákvæði. Þessi lög heyrðu undir eitt ráðuneyti, og um framkvæmd laganna, stjórnsýslu, eftirlit og þjónustu samkvæmt þeim sæi ein stofnun, fjölmiðlastofnun. Fjölmiðlar gegna mikilvægu menningarlegu hlutverki og er því nærtækast að málefni fjölmiðla heyrðu undir málasvið menntamálaráðuneytisins. Er það einnig í samræmi við verkaskiptingu ráðuneytanna eins og mælt er fyrir um hana nú í reglugerð nr. 3/2004 um Stjórnarráð Íslands.

Samþykkt: 
 • 6.5.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/2471


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Svanhildur Hólm Valsdóttir - lokaritgerð í lögfræði_fixed.pdf808.48 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna