Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2502
Hér er fjallað um kennitölur í ársreikningum en þær eru reiknaðar stærðir úr köflum ársreikninga sem lýsa frammistöðu fyrirtækja. Þær eru aðallega notaðar til að bera saman við tölur fyrri ára innan fyrirtækis eða við tölur frá fyrirtækjum í sama atvinnugeira. Fyrst er lýsing á ársreikningi, þar sem rekstrarreikningur, efnahagsreikningur og sjóðstreymi verða sérstaklega tekin fyrir en það eru kaflarnir sem innihalda stærðirnar sem notaðar eru í útreikningi á kennitölum. Síðan er flokkun kennitalna og lýsing á þeim ásamt helstu kennitölum í hverjum flokki. Að lokum er könnun á kennitölum í ársreikningum en 17 fyrirtæki voru valin og ársreikningar frá árunum 2005-2007 skoðaðir. Leitað var eftir hvort fyrirtæki setja einhverjar tilteknar kennitölur fram í ársreikningum sínum eða hvort lesandinn þyrfti að reikna þær út sjálfur. Einnig var kannað hvaða kennitölur þeir velja að upplýsa og skoða hvaða kennitala er vinsælust.
Það var mjög ánægjulegt að sjá hvað mörg fyrirtæki leggja mikið upp úr kennitölum, 7 fyrirtæki voru með sérstakan kafla í skýringum og önnur 7 fyrirtæki voru með niðurstöðublað eða yfirlit yfir lykiltölur þar sem kennitölur komu fram. Tryggingamiðstöðin var eina valda fyrirtækið sem gaf ekki upp neinar kennitölur nema hagnað á hlut í rekstrarreikningi og svo voru 2 fyrirtæki þar sem kennitölur komu fram í skýrslu stjórnar eða voru innan um aðrar upplýsingar um fyrirtækið. Það sem kom mest á óvart var hversu fáar kennitölur þetta eru sem flestir nefna, en þar gæti ástæðan verið sú að mörg þessara fyrirtækja eru frekar lík að gerð. Af þeim 5 kennitölum sem eru algengastar eru 2 um markaðsvirði og 1 um arðsemi, greiðsluhæfi og skuldsetningu. Kennitölur um nýtingu fjármagns voru mjög fáar og ekki meðal þeirra algengustu enda engar verslanir eða heildsölur valdar sem eflaust sýna meira af þeim. Algengasti flokkur kennitalna var markaðsvirði en það komu 7 kennitölur fram úr þeim flokki.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
pd_fixed.pdf | 406.56 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |