is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Umhverfisdeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Umhverfisdeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/25079

Titill: 
  • Langtímaáhrif alaskalúpínu og áburðargjafar á lifun og vöxt birkis í Þjórsárdal
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Alaskalúpína er harðgerð, niturbindandi jurt upprunin í N-Ameríku. Hún hefur lengi verið nýtt hérlendis til að græða upp auðnir og rofið land. Þegar lúpínan nær að þekja rofið land eykst nitur-og kolefnisforði jarðvegs. Í kjölfarið tekur að myndast nýtt vistkerfi sem einkennist af frjósemi og grósku, auðugt af margskonar lífverum. Þar sem alaskalúpínan er jarðvegsbætandi, er það fýsilegur kostur að nýta hana við skóggræðslu á svæðum þar sem næringarefni skortir.
    Í Sandártungu í Þjórsárdal hófst uppgræðsla með alaskalúpínu á sjöunda áratug síðustu aldar og síðan þá hafa lúpínubreiður á söndunum smám saman farið stækkandi. Árið 2002 voru birkiplöntur gróðursettar í tilraunareiti á Vikrum, annars vegar í lúpínubreiður og hins vegar í sandsvæði, til að kanna áhrif uppgræðslunnar á lifun og vöxt birkisins. Í tilrauninni voru meðferðarliðir með engum áburði, 0,2 g og 10 g á plöntu til að kanna áhrif mismunandi áburðargjafar við gróðursetningu. Minni áburðarskammturinn var settur í plöntuhnausinn rétt fyrir gróðursetningu og hefur þessi aðferð ekki verið reynd fyrr í nýskógrækt. Mælingar á úrtakstrjám og skráning lifunar hafa verið gerð reglulega á hluta reitanna. Sumarið 2014 voru mælingar gerðar í öllum reitum og meðferðum og í fyrsta sinn voru allar plöntur hæðarmældar og skrásett hvort lúpína væri í næsta nágrenni við hverja plöntu. Mælingar áranna 2003, 2006 og 2014 eru megin uppistaða þess sem birt er hér.
    Helstu niðurstöður voru þær að marktækur munur var á milli svæðanna bæði hvað varðaði lifun og hæðarvöxt trjánna. Hæðarvöxtur var mun meiri í lúpínubreiðum en á sandsvæðum, en minni munur var á lifun á milli svæðanna. Samanburður á áburðarmeðferðum sýndi að plöntur sem fengu 0,2 g á plöntu í rótarhnaus við gróðursetningu reyndust með besta lifun á sandsvæði og sama meðferð gaf besta hæðarvöxtinn innan lúpínubreiða. Niðurstöðurnar gefa til kynna að hvort heldur sé gróðursett innan eða utan lúpínu, sé þetta nægilegur skammtur fyrir plönturnar til að halda velli.

Samþykkt: 
  • 7.6.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/25079


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS ritgerð Jóhanna Ólafsdóttir.pdf867.43 kBOpinnPDFSkoða/Opna