is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Umhverfisdeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Umhverfisdeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/25080

Titill: 
 • Nýting á gróðurtorfum við uppgræðslu
Námsstig: 
 • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Aukin áhersla hefur orðið á mikilvægi þess að endurheimta staðar- eða grenndargróður á landi sem orðið hefur fyrir raski við gerð mannvirkja. Margar rannsóknir benda til þess að flutningur á gróðurtorfum geti skilað viðunandi árangri í því sambandi.
  Rannsókn mín var gerð á lagnaskurði við Hellisheiðarvirkjun í ágúst 2014 og jarðvegshitamæling fór fram í nóvember sama ár. Í október 2013 hafði verið grafinn skurður frá stöðvarhúsi að gashreinsistöð. Í janúar 2014 var gengið frá þessum skurði. Um 20° C heitt vatn rennur um lagnarörið á 1 m dýpi undir yfirborði skurðarins. Þrátt fyrir að við fráganginn hafi verið hugað að því að reyna að koma í veg fyrir að hiti leitaði upp á yfirborðið mældist tveggja gráðu hitamunur á milli skurðarsvæðisins og staðargróðurs. Skurðurinn var grafinn í gegnum gróið land og einnig land sem var raskað áður en framkvæmdir hófust. Á gróna svæðinu voru gróðurtorfur settar til hliðar ásamt jarðvegi og á raskaða svæðinu var jarðveginum komið fyrir til hliðar við skurðinn. Er lögnin var komin í skurðinn og búið að moka jarðvegi yfir aftur voru gróðurtorfurnar lagðar á þann hluta skurðarins sem gróinn var áður, gagngert til að flýta fyrir uppgræðslu. Hluti svæðisins er beitarland og hluti er beitarfriðað.
  Rannsóknin fólst í því að bera saman svæðið ofan á lagnaskurðinum, annars vegar land sem var raskað fyrir framkvæmdir og hins vegar gróið land sem raskaðist við framkvæmdirnar og búið var að leggja torfurnar aftur á sinn stað, saman við staðargróður. Skurðinum var skipt upp í sex svæði. Hvert svæði ofan á lagnaskurðinum innihélt tvö snið, þ.e. gróðurtorfusnið og rasksnið. Samsíða þessum sniðum voru staðargróðursnið. Alls gerðu þetta sex gróðurtorfusnið (G), sex staðargróðursnið (SG), sex rasksnið (R) og sex staðargróðursnið við raskið (RS). Hvert snið var 10 m langt og metri á breidd. Fjórir gróðurrammar voru lagðir út í hvert snið. Um 11,5 metrum vestan við skurðinn voru sett út samanburðarsnið fyrir staðargróður. Gróðurþekja var mæld, tegundafjöldi greindur og samsetning gróðurs skoðuð. Jafnframt var jarðvegshiti mældur á 10 cm dýpi, bæði í skurðar- og samanburðarsniðum, til að kanna hvort hiti frá lögn bærist upp undir yfirborð.
  Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu mikinn mun á milli sniða þar sem gróðurtorfur voru settar aftur á sinn stað og sniða sem röskuð voru fyrir framkvæmdir og gróðurtorfur voru ekki notaðar. Tegundasamsetning var á þann veg að í gróðurtorfusniðunum (G) fundust 25 háplöntutegundir og sjö mosategundir en í staðargróðursniðunum (SG) fundust 26 háplöntutegundir, sjö mosategundir og ein fléttutegund. Í staðargróðursniðum (SR) fundust 19 háplöntutegundir, sjö mosategundir og tvær fléttutegundir. Í rasksniðum fundust 13 háplöntutegundir og sjö mosategundir (tafla 2).
  Í rasksniðum fundust aðallega rasktegundir, svo sem vegarfi og klóelfting, og var klóelfting með mestu meðalþekjuna þar. Vegarfi var með svipaða meðalþekju í gróðurtorfusniðum og í rasksniðum. Sumar mosategundir höfðu mun hærri þekju í staðargróðri en sniðum með gróðurtorfum. Engin mosategund náði 1% þekju í rasksniðum. Þeir gróðurhópar sem mesta þekju höfðu voru grös og mosar. Algengustu grastegundir sem fundust í rannsókninni voru túnvingull, blávingull og hálíngresi og sýndu þær allar marktækan mun á meðalþekju milli staðsetninga. Athygli vakti að í gróðurtorfusniðum voru örlítið fleiri gróðurtegundir en í staðargróðri. Gróðurtorfusniðin höfðu þó ekki enn náð staðargróðrinum í gróðurþekju. Þrátt fyrir að stuttur tími hafi verið frá frágangi rannsóknarsvæðisins benda niðurstöðurnar til þess að uppgræðsla með gróðurtorfuaðferðinni hraði gróðurframvindu. Sumar tegundir voru með mjög litla þekju í ákveðnum gróðurrömmum, til dæmis fannst haugarfi aðeins í einu tilteknu sniði, og því erfitt um vik að meta hvaða tegundir töpuðust við flutninginn á gróðurtorfunum.

Samþykkt: 
 • 7.6.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/25080


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS-ritgerð_Jóhanna-Pétursdóttir-20.ágúst2015_.pdf1.44 MBOpinnPDFSkoða/Opna