Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/25144
Í ritgerðinni var leitast við að skýra helstu ákvæði alþjóðlegra mannréttindasáttmála ásamt því sem íslensk löggjöf var skoðuð til samanburðar, sérstaklega með tilliti til meiðyrða. Höfundur lagði upp með þá tilgátu að dómaframkvæmd á Íslandi væri ekki að öllu leyti í samræmi við þá staðla sem settir hafa verið til dæmis við Mannréttindadómstól Evrópu. Auk þessa var augljóst eftir stutta skoðun að ákvæði hegningarlaga eins og þau eru í dag standast enga skoðun í samanburði við þá alþjóðlegu samninga sem Ísland er aðili að. Þau helstu hugtök sem fjallað var um eru tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs, kælingaáhrif og ærumeiðingar. Við ritgerðarvinnuna var stuðst við svokallaða dogmatíska aðferð þar sem gildandi réttur var greindur á grundvelli lögfræðihugtaka með hliðsjón af réttarheimildum og lögskýringargögnum. Höfundur lagði upp með að svara rannsóknarspurningunni hvort íslensk meiðyrðalöggjöf standist kröfur alþjóðlegra mannréttindasamninga. Þrátt fyrir að nokkrar framfarir hafi átt sér stað undanfarin ár, svo sem með breytingum á mannréttindakafla stjórnarskráarinnar, þá virðist þó enn víða nokkru ábótavant í íslenskri löggjöf eigi hún að standast þær kröfur sem settar eru í alþjóðlegum samningum. Ennfremur virðist dómaframkvæmd á Íslandi vera nokkuð ólík því sem gerist til að mynda hjá Mannréttindadómstól Evrópu þegar kemur að málum er varða tjáningarfrelsið.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MLritgerd_v2016_HjorturIngiHjartarson_.pdf | 1.27 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |
Athugsemd: Óheimilt er að afrita verkið að hluta eða í heild án leyfis höfundar hverju sinni.