Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2519
Tilgangur þessa lokaverkefnis er að fjalla um heilsueflingu á vinnustöðum og mögulegan ávinning hennar. Nýttar voru heimildir til að varpa ljósi á heilsueflingu og tekið viðtal við stjórnanda hjá lyfjafyrirtækinu Actavis til að fá innsýn í framkvæmd og ávinning heilsueflingar á vinnustað.
Helstu heilbrigðisvandamál nútímans eru meðal annars offita og streita. Streita á vinnustað er talin vera eitt helsta vandamál sem vinnustaðir glíma við í dag. Hún getur haft slæmar afleiðingar fyrir fólk og er þar helst að nefna kvíða, þreytu, svefntruflanir og kulnun í starfi. Streita á vinnustað getur haft áhrif á starfsánægju, frammistöðu og valdið auknum fjarvistum og minni framleiðni. Mikilvægt er að vinnustaðir átti sig á þessu vandamáli og innleiði streitustjórnun en í henni felst að stjórnendur greini þá þætti er valda streitu og reyni að takmarka þá.
Heilsueflingu á vinnustað er ætlað að stuðla að bættri heilsu starfsmanna með áherslu á meðal annars hreyfingu, næringu, geðrækt og vinnuumhverfi. Til þess að heilsuefling virki á vinnustöðum þarf að innleiða eflinguna með stuðningi stjórnenda og setja fram skýra stefnu og aðgerðaráætlun.
Helstu niðurstöður eru að ávinningur af heilsueflingu er mikill fyrir vinnustaði, starfsfólk og samfélagið í heild. Helsti ávinningur vinnustaða er bætt ímynd og aukin framleiðni. Starfsfólk bætir heilsu sína en um leið hefur heilsuefling góð áhrif á starfsanda og liðsheild. Ávinningur samfélagsins er til dæmis lægri útgjöld vegna heilbrigðisþjónustu og meiri framleiðni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
eintak_fixed.pdf | 517.37 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |