Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/25392
Nýsköpun er grundvöllur nýrrar þekkingar og undirstaða þróunar á öllum sviðum samfélagsins. Internetið er mikilvægur hluti af alþjóðavæðingu heimsins en í dag eru um 3,4 milljarðar manna, eða um helmingur mannkyns, daglega tengdir internetinu. Internetið er alþjóðlega samkeppnishæft og getur skapað varanlega hagsæld og verðmætasköpun fyrir atvinnulífið hér á landi. Nú geta menn stundað viðskipti frá öllum heimshornum og landshornum í gegnum internetið, atvinnutækifærin aukast og auðveldara verður að stunda viðskipti milli landa og reka slík fyrirtæki óháð staðsetningu.
Í þessari ritgerð er fjallað um íslenska netfrumkvöðla í alþjóðaviðskiptum og þau tækifæri og hindranir sem slík fyrirtæki standa frammi fyrir. Netfrumkvöðlar sem teknir voru fyrir í þessari ritgerð hafa stofnað fyrirtæki og stundað rekstur sinn á internetinu og fá tekjur sínar erlendis frá í erlendum gjaldeyri. Framkvæmd var eigindleg rannsókn í formi viðtala og rætt var við tvö íslensk netfyrirtæki í rekstri og nokkra einstaklinga úr atvinnulífinu. Fyrirtækin eru Fyrirtæki A og AuthorityNutrition.com. Bæði fyrirtækin eiga það sameiginlegt að skrifa pistla á vefsíðu sína á ensku. Í ljós kom að Fyrirtæki A hefur rekist á margar hindranir í ferlinu allt frá stofnun þess og skráningu til flutnings á erlendu fjármagni inn á íslenskan bankareikning. Einnig vakti áhugaleysi stjórnvalda athygli sem og viðmót og viðhorf opinberra stofnana og bankakerfisins. Ljóst er að löggjafinn hefur ekki fylgt hraða tækniþróunar og ekki náð að fylgjast með og aðlagast nýjum veruleika. Skortur er á stuðningi og leiðsögn við unga frumkvöðla og framsýni í menntakerfinu. Í ritgerðinni eru settar fram ýmsar almennar hugmyndir til úrbóta á ýmsum sviðum til að bæta stöðu íslenskra netfrumkvöðla á alþjóðamarkaði. Þetta getur bæði skipt sköpum fyrir verðmætasköpun og atvinnutækifæri fyrir fyrir ungt fólk og einnig unnið gegn brottflutningi ungs menntaðs fólks af landi eða búferlaflutninga frá landsbyggðinni til höfuðuborgarsvæðisins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS RITGERÐ - Skemman.pdf | 394,14 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |