Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/25497
Í þessari ritgerð eru tengsl ljósmyndunar og grafískrar hönnunar könnuð. Oft er rætt um þessa miðla í sitthvoru lagi, enda mjög víðfeðmir hvor fyrir sig, en engu að síður tengjast þeir sterkum böndum. Farið verður yfir sögu miðlanna og athugað hver sé uppruni þeirra og hvernig þeir hafa þróast hvor í sínu lagi. Ekki er um tæmandi úttekt að ræða. Þegar ljósmyndun ber á góma, dettur fáum grafísk hönnun í hug. Fyrst við upphaf 20. aldar voru miðlarnir notaðir saman. Í raun má síðan segja að miðlarnir hafi farið í gegnum ákveðna endurfæðingu á fyrstu áratugum 20. aldar. Allt frá módernisma og yfir í hina svokölluðu póst-módernísku tíma seint á 20. öldinni þá hafa þessir miðlar þróast umtalsvert. Í ritgerðinni verður leitast við að útskýra tengsl þeirra. Við lok 19. aldar var einkum litið á ljósmyndun sem tæki til að skrásetja veruleikann, á sama tíma og grafísk hönnun naut aldrei viðlíka virðingar og til að mynda svokölluð skapandi myndlist, listmálun og höggmyndagerð. Það þótti ekki jafn fínt að vera að vinna með þessa miðla, grafíska hönnun og ljósmyndun, og vera til að mynda rithöfundur eða listmálari. Á Vestur-löndum var stéttskiptingin víðast hvar niðurnjörvuð, til dæmis á Viktoríu-tímabilinu í lok 19. aldar og óbreytt verkafólk hafði engin tengsl við listaheiminn. Krafan um eitthvað nýtt í hinum skapandi geira varð þó sífellt sterkari. Framsæknir hönnuðir, arkítektar, myndhöggvarar og ljósmyndarar risu gegn upp gegn hugmyndum eins og þeim að listmálarar og rithöfundar væru settir á hærri stall en hinir og vinna þeirra væri ekki tekinn jafn alvarlega.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Tengsl ljósmyndunar og grafískrar hönnunar-Hörður Ásbjörnsson.pdf | 759,88 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |