is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/25713

Titill: 
  • Endurskoðunarvald dómstóla á stjórnskipulegu gildi laga
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Reglan um endurskoðunarvald dómstóla á stjórnskipulegu gildi laga veitir dómstólum heimild til að endurskoða hvort almenn lög sem löggjafinn setur séu í ósamræmi við ákvæði stjórnarskrár. Ef þeir telja svo vera víkja þeir viðkomandi ákvæði eða lagabálki til hliðar og byggja ekki á þeim við úrlausn mála. Reglan átti upptök sín í bandarískri réttarframkvæmd um aldamótin 1800. Hugmyndir um endurskoðunarvaldið fluttust þaðan til annarra landa og var reglan meðal annars tekin upp í stjórnskipun á Norðurlöndunum. Var það gert á grundvelli sömu röksemda og færð voru fyrir reglunni í Bandaríkjunum þegar hún var fyrst fest í sessi þar. Þær röksemdir sneru fyrst og fremst að því að það væri óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að hafa ritaða stjórnarskrá að fela dómstólum að endurskoða stjórnskipulegt gildi laga. Á 20. öldinni skildu leiðir hvað varðar réttarheimildarlegan grundvöll reglunnar, og í stað þess að telja þetta fyrirkomulag leiða beint af stjórnskipuninni var á Norðurlöndunum talið að um stjórnskipunarvenju væri að ræða. Nú til dags er reglan viðurkennd stjórnskipunarvenja á Íslandi, í Noregi og í Danmörku. Í Svíþjóð hefur reglan hins vegar verið tekin upp sem skriflegt ákvæði í stjórnarskrá.
    Í þessari ritgerð verður fjallað um endurskoðunarvald dómstóla á stjórnskipulegu gildi laga. Í fyrsta kafla verður fjallað í stuttu máli um nokkrar af grunnstoðum lýðræðisríkja, það er stjórnarskrána, stjórnarskrárhyggju, réttarríkið og kenninguna um þrígreiningu ríkisvaldsins. Til að markmiðum þessara hugmynda verði náð þarf að tryggja að ákvæðum stjórnarskrár verði framfylgt. Endurskoðunarvaldi dómstóla er ætlað að gegna þessu hlutverki. Til að tryggja að farið sé eftir ákvæðum stjórnarskrár og löggjafinn setji ekki lög sem fari gegn henni er dómstólum veitt heimild til að endurskoða það hvort almenn lög séu ósamrýmanleg ákvæðum stjórnarskrár.
    Í öðrum kafla verður gerð grein fyrir upphafi endurskoðunarvaldsins og þeim rökum sem færð voru fyrir því að fela dómstólum þetta vald. Þá verður fjallað um þá gagnrýni sem reglan hefur hlotið og hvernig hún hefur breyst frá því að snúa fyrst og fremst að því á grundvelli hvaða heimilda dómstólum sé falið að fara með þetta vald yfir í hvar mörk þess liggja. Að lokum verður greint frá þremur sjónarmiðum sem eiga að skýra mörk endurskoðunarvaldsins.

Samþykkt: 
  • 15.8.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/25713


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA-ritgerð í lögfræði.pdf424.66 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_Sigurveig.pdf320.79 kBLokaðurYfirlýsingPDF