is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2585

Titill: 
  • Greiðslukerfi
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Þegar ég lagði af stað í rannsókn mína á greiðslukerfum var þekking mín á sviði greiðslukerfa einum og sér frekar takmörkuð, enda eru greiðslukerfi mjög lítið í fjölmiðlum eða kennslubókum hagfræðinnar. Það kom mér frekar á óvart hversu lítið hefur verið skrifað hérlendis um fræði á bakvið greiðslukerfi og sömuleiðis um íslensku greiðslukerfin. Þó er til mikill fjöldi erlendra pappíra um fræði greiðslukerfa og hafa bæði Alþjóðagreiðslubankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skrifað margar skýrslur á þessu sviði. Hins vegar er greiðslumiðlun mun meira áberandi í daglegu tali og námi og þekking mín var því meiri á því sviði. Það var þar af leiðandi mjög áhugavert að kynnast fræðum greiðslukerfa og dýpka skilning minn á greiðslumiðlun enn meira og reyna að leggja mat á áhrif fjármálaóstöðugleika á greiðslumiðlun og greiðslukerfi. Sömuleiðis að skoða áhrif íslenska viðskiptabankahrunsins og beitingu hryðjuverkalaganna á íslensk greiðslukerfi og greiðslumiðlun.
    Mikið eftirlit virðist vera almennt með greiðslukerfum, meðal annars hjá Alþjóðagreiðslubankanum og nefndar hans á vegum greiðslukerfa. Kjarnareglurnar 10 á vegum nefndarinnar, sem öll kerfislega mikilvæg greiðslukerfi eiga að uppfylla, er til að mynda staðfesting á góðu eftirliti með greiðslukerfum. Íslensku greiðslukerfin eru öll kerfislega mikilvæg og tel ég þau uppfylla þessar kjarnareglur í ljósi þess að starfsemi íslensku greiðslukerfanna beið ekki hnökra í viðskiptabankahruninu og beitingu hryðjuverkalaganna á Ísland. Mikið eftirlit og kröfuharðar úttektir á greiðslukerfum er því mikilvæg starfsemi í kringum greiðslukerfi. Dæmi þess má sjá að í júní 2008 var gerð úttekt á íslensku greiðslukerfunum þar sem kom í ljós að íslensku greiðslukerfin höfðu farið eftir tilmælum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til með. Íslensku greiðslukerfin voru því vel í stakk búin til að takast á við þau áföll sem dundu yfir nokkrum mánuðum síðar og rannsókn mín náði yfir.
    Íslenska greiðslukerfið og innlend greiðslumiðlun stóðu, að mínu mati, mjög vel af sér bankahrunið hérlendis og beitingu breskra yfirvalda á hryðjuverkalögunum. Það sýnir að stórgreiðslukerfið, jöfnunarkerfið, verðbréfauppgjörskerfið og RÁS-kerfið eru afar skilvirk kerfi. Reiknistofa Bankana, sem hýsir og starfrækir kerfin, býr greinilega yfir mjög góðum og fullkomnum tæknibúnaði og mikilli þekkingu sérfræðinga. Samvinna þeirra aðila sem koma að greiðslukerfunum hefur því verið með besta móti. Bankakerfið er í raun eina og sama kerfið og voru allir þeir aðilar sem haft var samband við, í rannsókn þessari, sammála um að það hafi átti stóran þátt í því að innlend greiðslumiðlun hélt velli. Ef hver og einn banki hefði til dæmis verið með sitt eigið kerfi, þá hefði verið mun erfiðara að bregðast fljótt við þeim áföllum sem dundu yfir þjóðina. Til dæmis sú aðgerð að flytja innistæður úr bankaútibúi sem FME tók yfir, til annars banka. Einu marktæku áhrif bankahrunsins og hryðjuverkalaganna má segja að séu lægri veltutölur í kerfunum eftir að þessu áföll dundu yfir.
    Samkvæmt þeim aðilum sem rætt var við hjá Seðlabankanum og Fjölgreiðslumiðlun hefði allt getað farið í „háa loft“ hérlendis ef einhver af greiðslukerfunum hefðu brugðist. Það hefði getið hrundið af stað mikilli keðjuverkun sem gæti haft enn verri afleiðingar í för með sér. Setning neyðarlaganna, til þess að vernda innlendar innistæður, á stóran þátt í því að innlend greiðslumiðlun hefur gengið vel fyrir sig.
    Erlend greiðslumiðlun íslensku bankanna varð hins vegar fyrir miklu tjóni í þeim áföllum sem dundu yfir hérlendis í lok september og byrjun október. Erlendir bankar misstu nær alla trú á íslensku bönkunum og margir hverjir neituðu að framkvæma greiðslur fyrir þá. Erlendir bankar óttuðust að greiðslur frá þeim, myndu enda í þrotabúum hérlendis. Það má hugsalega segja að erlend greiðslumiðlun fjármálastofnana hérlendis væri dæmd til þess að bíða hnekki. Erfitt verður að teljast fyrir greiðslumiðlun við útlönd, að ná að standa af sér hrun allra viðskiptabanka landsins og jafn afdrifaríka aðgerð og beiting hryðjuverkalaganna hafði í för með sér. Hins vegar er athyglisverð spurning hvort erlend greiðslumiðlun hefði haldið betur velli ef erlend greiðslumiðlun íslensku bankanna hefði farið í gegnum Continues Linked Settlement eða Target 2 kerfið þar sem CLS kerfið, til að mynda, eyðir uppgjörsáhættu þátttakenda. En Correspondant Banking greiðslukerfið, þar sem erlend miðlun íslensku bankanna hefur farið í gegn, hefur ekki þann eiginleika.
    Það má því greinilega sjá að fjármálaóstöðugleiki getur haft mjög slæm áhrif á greiðslumiðlun og greiðslukerfi. Gjaldþrot Lehman banka, sem er stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna, og afleiðingar þess gjaldþrots er einnig gott dæmi um afleiðingar fjármálaóstöðugleika á greiðslumiðlun og greiðslukerfi. Traust á milli banka og annarra fjármálastofnana hvarf og gerði það endufjármögnun bankanna gríðarlega erfitt fyrir. Bankar þurftu í auknum mæli að treysta á skammtíma fjármögnun og fjármögnunarkostnaður fyrirtækja og einstaklinga hækkaði mikið. Lausafé þurrkaðist einnig upp á lánsfjármörkuðum. Mótaðilar Lehman banka í viðskiptum hafa tapað miklum fjárhæðum og mörg greiðslufyrirmæli hreinlega týndust í greiðslukerfunum. Mörg fjármálafyrirtæki eða fjárfestar hafa því búið við mikla óvissu varðandi greiðslumiðlun. Athyglisvert er að velta því fyrir sér hvort þessi keðjuverkun hefði átt sér stað ef bandaríska ríkið hefði komið í veg fyrir hrun Lehman Brothers en slík spurning er mjög áhugavert rannsóknarefni.
    Að mínu mati eru greiðslukerfi og greiðslumiðlun gríðarlega mikilvægir þættir í hagkerfum þjóða og skilvirkni þeirra getur haft mikil áhrif á aðstæður á fjármálamörkuðum og öðrum mörkuðum hagkerfa. Þátttakendur í greiðslumiðlun munu ávallt búa við nokkra áhættuþætti eins og greiðslufallsáhættu, þar sem mótaðili þátttakanda gæti orðið gjaldþrota, eða lausafjáráhættu, þar sem hætta er á að mótaðili búi ekki yfir nægilegu fjármagni til að ljúka við greiðslu. Til þess að greiðslumiðlun gangi hnökralaust fyrir sig þá er því mjög mikilvægt að aðilar í greiðslumiðlun nái að ljúka við skuldbindingar sínar og geti fengið, til dæmis, dagslán til að ljúka við greiðslu. Nái aðilar ekki að standa við skuldbindingar sínar getur það falið í sér tap fyrir mótaðilann og valdið áfram keðjuverkandi áhrifum. Einnig er mjög mikilvægt að lánstraust ríki á milli aðila í greiðslumiðlun. Ef traust hverfur á milli aðilanna þá eru þeir mun tregari til að veita lán sem gerir fjármögnun og jöfnun skuldbindinga erfiðara fyrir.
    Ljóst er að atburðir hérlendis, allt frá því að íslensku viðskiptabankarnir hrundu og í raun til dagsins í dag, hafa veitt okkur Íslendingum gríðarlega þekkingu og reynslu á sviði greiðslumiðlunar og greiðslukerfa sem getur komið öðrum þjóðum að gagni. Aðstæður hérlendis munu vera áhugavert rannsóknarefni fyrir fræðimenn og má búast við því að mörg fræðirit í framtíðinni muni fjalla um það hvernig hægt sé að draga lærdóm af því sem gerst hefur hér á landi.

Samþykkt: 
  • 12.5.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/2585


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_Greidslukerfi_fixed.pdf676.42 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna