is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/25866

Titill: 
 • Krabbamein í leghálsi á Íslandi 2001-2015
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Á Íslandi greinast árlega um 15 konur á ári með krabbamein í leghálsi. Talsvert er vitað um orsakir leghálskrabbameins. HPV-veirur (e. human papilloma virus), sem smitast við kynmök, eru í langflestum tilfellum nauðsynleg forsenda fyrir myndun illkynja æxla í leghálsi. Sem dæmi um helstu áhættuþætti má nefna fjölda rekkjunauta, önnur kynsmit og reykingar. Leghálskrabbamein er í langflestum tilfellum af flöguþekju-uppruna. Kjörmeðferð fer eftir stigun krabbameins hverju sinni en algengast er að framkvæmd sé skurðaðgerð ef krabbameinið greinist nógu snemma. Litlar upplýsingar liggja fyrir um leghálskrabbamein á Íslandi. Tilgangur rannsóknar þessarar var að fá yfirsýn yfir sjúkdóminn hér á landi, s.s. aldursdreifingu, einkenni, greiningaraðferðir, meingerð, meðferð og horfur.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra kvenna sem greindust með leghálskrabbamein á Íslandi á árunum 2001-2015. Klínískar upplýsingar um sjúklingana og sjúkdóm þeirra fengust úr sjúkraskrám, aðgerðarlýsingum, meinafræðisvörum og myndgreiningarsvörum.
  Niðurstöður: Alls greindust 236 konur með leghálskrabbamein á Íslandi á rannsóknartímabilinu eða að meðaltali 15,7 kona á ári. Meðalaldur var 44,7 ár og greindust flestar konur í aldurshópnum 35-39 ára. Í flestum tilfellum greindust konur við frumustrok eða vegna tilviljunar við heimsókn hjá kvensjúkdómalækni (59,3 %) en í mörgum tilfellum leiddu einkenni (40,7 %) til greiningar. Marktækur munur var á aldri kvenna sem greindust vegna einkenna og þeirra sem greindust einkennalausar og var hann að meðaltali 11,9 ár. Algengasta greiningaraðferðin var sýnataka frá leghálsi, oftast við leghálsspeglun (50,9 %) og langalgengasta vefjagerð greindra leghálskrabbameina hér á landi er af flöguþekjuuppruna (72,9%). Í 73% tilvika var sjúkdómur staðbundinn við greiningu og 27% voru með æxli sem var vaxið út fyrir leghálsinn en hlutfallslega greindust fleiri með lengra genginn sjúkdóm á síðari hlutum rannsóknartímabilsins. Tegund meðferðar var oftast skurðaðgerð sem helst í hendur við að konur voru að greinast í flestum tilfellum af stigi IA1 og IB1 sem hvort um sig flokkast sem skurðtæk tilvik. Á rannsóknartímabilinu fengu 11,4 % sjúklinganna endurkomu krabbameinsins og 3,4 % greindust með versnun á sínum sjúkdómi. Fimm ára lifun fyrir alla greinda var 81,2 % og sýnt var fram á marktækan mun á 5 ára lifun sjúklinga af fjórum mismunandi stigum leghálskrabbameins.
  Ályktanir: Horfur kvenna með leghálskrabbamein tengjast beint stigun sjúkdómsins. Svipaðar niðurstöður fengust hvað varðar einkenni, meingerð, aldursdreifingu og nýgengi sjúkdómsins hér á landi og þekkt er í öðrum þróuðum löndum. Niðurstöður sýndu fram á að konur greindust með lengra genginn sjúkdóm eftir því sem líður á rannsóknartímabilið. Lagður var grunnur að gagnagrunni um sjúkdóminn hér á landi.

Samþykkt: 
 • 30.8.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/25866


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS-ritgerð Jónas 28.8.pdf879.92 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_Jónas.pdf315.38 kBLokaðurYfirlýsingPDF