Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/25933
Í hugum þeirra sem stjórnvaldsákvarðanir beinast að eru þær oft rangar eða ósanngjarnar. Þá vilja þeir gjarnan fá þeim breytt og fara fram á það við stjórnvaldið sem tók ákvörðunina að það fari á ný yfir málið. Þegar stjórnvöldum berast slíkar beiðnir standa þau oft frammi fyrir flóknum spurningum, ekki aðeins um hvers vegna þau ættu að fallast á slíkar beiðnir, heldur einnig hvernig þau eigi þá að bera sig að, s.s. um hvort þau eigi að opna upphaflega málið og halda áfram eins og nýja erindið sé hluti af því, eða stofna nýtt mál. Í ritgerð þessari verða slík mál einu nafni nefnd endurupptökumál. Í fyrsta kafla verða hugtakanotkun og efnistök ritgerðarinnar skýrð. Farið yfir það hvernig þau geti byrjað og að frumkvæði hvers. Í því sambandi verður meðal annars skoðað hvort skilgreina eigi slík mál út frá því hvaðan frumkvæðið að stofnun þeirra kemur, en til greina kemur að láta þetta orð aðeins ná yfir þau mál sem stofnað er til að beiðni málsaðila en ekki þau mál sem stjórnvald stofnar að eigin frumkvæði. Þá verður hugtakið endurupptaka máls skoðað og hvort það nái yfir alla meðferð slíkra mála eða aðeins það ferli sem hefst eftir að stjórnvald hefur tekið þá afstöðu að verða við beiðni málsaðila um nýja málsmeðferð. Eins verður farið yfir það hvort gera eigi greinarmun á málum þegar stjórnvöld endurupptaka mál vegna þess að þeim sé það heimilt og hinum þegar þau gera það vegna þess að þeim sé það skylt. Það ræðst m.a. af því hvort fyrir liggi ný rök, upplýsingar eða atriði sem gefa ástæðu til að ætla að verulegur annmarki sé á umræddri ákvörðun. Loks verður farið yfir hvort ástæða sé til að gera greinarmun á málum vegna þess hvort beiðni um endurupptöku máls fylgi nýjar upplýsingar um málsatvik og beiðnum sem ekki fylgja slíkar upplýsingar. Í öðrum kafla verða rakin helstu sjónarmið og rök sem almennt mæla með og á móti því að mál fái nýja meðferð. Þar verður fjallað um endurupptöku máls á almennan hátt og þau sjónarmið sem mynda grundvöll þess að slíkt úrræði standi aðila máls til boða. Í þriðja kafla verður fjallað um upphaf endurupptökumála, þ.e. að hvers frumkvæði þau hefjast og hvort stofnun slíks máls feli ávallt í sér stofnun nýs máls í skrám stjórnvalda. Í fjórða kafla beinast sjónir að endurupptöku máls á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga. Í fimmta kafla er fjallað um skyldu stjórnvalds til endurupptöku máls á grundvelli óskráðra reglna. Í sjötta kafla verður skoðað með hvaða hætti stjórnvöld skulu, fallist þau á að taka mál til nýrrar meðferðar, bera sig að í kjölfarið og m.a. skoðað hvort líta beri á svar við beiðni sem ákvörðun um málsmeðferð eða sem stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Í sjöunda kafla verður fjallað um hugsanlegar lyktir endurupptökumála, í áttunda kafla er fjallað um samanburð endurupptöku máls við stjórnsýslukærur og í níunda kafla er fjallað um takmarkanir á rétti aðila til endurupptöku máls. Í 10 kafla verður farið yfir það hvert menn skuli beina beiðnum sínum um að mál fái nýja meðferð og hvaða reglur telja má gilda um bærni. Í þeim efnum verður einkum skoðað hver sé bær til að taka nýja stjórnvaldsákvörðun þegar æðra stjórnvald hefur tekið gildandi ákvörðun í umræddu máli.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Skylda stjórnvalds til endurupptöku máls - Skemman.pdf | 1,49 MB | Locked Until...2088/01/01 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing.pdf | 53,49 kB | Locked | Yfirlýsing |