is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/25939

Titill: 
 • Skattaleg álitaefni við umbreytingu rekstrar. Með sérstakri áherslu á samruna og dóm Hæstaréttar í máli nr. 555/2012
 • Titill er á ensku Tax related issues regarding business conversion. With emphasis on mergers and Supreme Court's ruling in case number 555/2012
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Þegar um sölu, framlag eða framsal eigna er að ræða á milli skattaðila er meginreglan sú að skatt þurfi að greiða ef markaðsverð er hærra en skattalegt bókfært verð eignar. Þetta gildir líka sé eign lögð fram við stofnun félags eða við umbreytingu á rekstri. Víða er þó að finna undantekningar frá skattskyldu þessari til að auðvelda félögum og einstaklingum aðgerðir sem gerðar eru í rekstrarlegum tilgangi eða sem stefna að því að ná fram samlegðaráhrifum. Almennt er talið að tilgangur og huglægar forsendur að baki fjárhagslegri ráðstöfun séu skattlagningu óviðkomandi. Því er ekki talið máli skipta að skattalegt hagræði hafi verið forsenda fyrir ákvörðun um fjárhagsleg málefni. Í mörgum tilvikum geta ráðstafanir skattaðila til að komast hjá greiðslu skatta verið lögmætar og beinlínis gert ráð fyrir þeim í lögum. Þegar skattaðilar hins vegar nýta sér annmarka í skattkerfinu og galla í löggjöfinni er hægt að segja að þeir séu að sniðganga skattalögin. Það ber þó að varast að fella ráðstafanir sem fela í sér skattalega fyrirhyggju undir sama hatt og skattasniðgöngu. Aðgreining skattalegrar fyrirhyggju og skattasniðgöngu getur verið vandmeðfarin og skattyfirvöld og dómstólar eru ekki í öfundsverðu hlutverki að greina þar á milli.
  Þegar eitt eða fleiri fyrirtæki eru leyst upp með þeim hætti að allar eignir og skuldir þeirra eru færðar yfir til annars fyrirtækis sem er starfandi fyrir, er talað um samruna fyrirtækjanna. Samruni getur einnig orðið með stofnun nýs félags þegar tvö eða fleiri félög renna saman í nýtt félag sem ekki var starfandi fyrir samruna. Ein þeirra sérstöku aðstæðna sem geta falið í sér undanþágu frá skattskyldu er samruni tveggja eða fleiri hlutafélaga, samvinnufélaga og sameignarfélaga. Ákvæði í 51. gr. tsl. telur upp þau skilyrði sem samruni hlutafélaga þarf að uppfylla til að yfirfærsla eigna skuli undanþegin skatti. Þar segir að „sé hlutafélagi slitið þannig að það sé algjörlega sameinað öðru hlutafélagi og hluthafar í fyrrnefnda félaginu fái eingöngu hlutabréf í síðarnefnda félaginu sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í félagi því sem slitið var, þá skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutabréfin lét af hendi. Við slíkan samruna hlutafélaga skal það félag, er við tekur, taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum þess félags sem slitið var.“
  Skipting hlutafélags fer fram með yfirtöku og felur í sér tvö atriði. Annars vegar að hlutafélagi (yfirteknu félagi) sé skipt þannig að fleiri en eitt hlutafélag eða einkahlutafélag (yfirtökufélög) taki við öllum eignum og skuldum þess. Hins vegar að eitt eða fleiri hlutafélög eða einkahlutafélög (yfirtökufélög) taki hluta af eignum og skuldum hlutafélags (yfirtekið félag). Líkt og gildir um samruna heldur starfsemin áfram á grundvelli réttinda og skyldna þeirra félaga sem taka þátt í skiptingunni og eignir og skuldir félaganna eru ekki endurmetnar í tilefni skiptingar. Til þess að skipting geti verið skattfrjáls þarf hún að uppfylla skilyrði 52. gr. tsl. Samkvæmt henni skal skipting hlutafélags, sem er fólgin í því að fleiri en eitt hlutafélag taki við eignum og skuldum þess, hvort heldur að hluta eða öllu leyti og hluthafarnir í félaginu sem skipt er fái eingöngu hlutabréf í félögunum sem taka við sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í hinu skipta félagi, ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutabréfin lét af hendi. Ef hluthafar í framlagsfélagi fá einhver önnur verðmæti, svo sem peningagreiðslu, eru skilyrði 52. gr. fyrir skattfrjálsri skiptingu, ekki uppfyllt. Eignarhlutir hluthafa í viðtökufélögunum skulu vera innbyrðis í sömu hlutföllum og eignarhlutirnir voru í félaginu sem skipt er og eignir og skuldir skulu yfirfærast á bókfærðu verði. Við skiptingu skiptast skattalegar skyldur og réttindi milli félaganna í sama hlutfalli og bókfært verð eigna að frádregnum skuldum sem flytjast til þeirra.
  Þegar einkahlutafélag er stofnað við framlag á eignum manns sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi fer fram yfirfærsla á eignum frá einum sjálfstæðum skattaðila til annars. Í slíkum tilvikum þarf því að gera upp og skattleggja tekjur mannsins eins og hann hafi selt eignirnar óskyldum aðila á markaðsverði nema farið sé með yfirfærsluna í samræmi við ákvæði 56. gr. tsl. Samkvæmt ákvæðinu hefur það ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eiganda eða félag þegar einstaklingur í atvinnurekstri stofnar einkahlutafélag sem tekur við öllum eignum og skuldum atvinnurekstrarins og hefur með höndum sams konar rekstur eða starfsemi og ef öll skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt að öðru leyti.

Samþykkt: 
 • 5.9.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/25939


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
PDF_Ritgerðin_Tilprentunar.pdf764.64 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlysing va.pdf281.31 kBLokaðurYfirlýsingPDF