is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/26005

Titill: 
 • Þörfunum mætt? : könnun á reynslu foreldra leikskólabarna með röskun á einhverfurófi af greiningarferlinu, kennslu, stuðning og samstarfi
 • Titill er á ensku Meeting the needs? : perceptions of parents of children with ASD regarding the diagnostic process, cooperation and support in preschools
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Samvinna foreldra og leikskólastarfsfólks þarf alla jafna að byggja á trausti og virðingu og á það ekki síður við þegar um er að ræða börn með frávik í þroska eins og einhverfu. Foreldrar þurfa að upplifa sig sem þátttakendur í námi barna sinna og finna að skoðanir þeirra og innsýn skipti máli. Skólanámsskrár, lög og stefnur skóla gera ráð fyrir að foreldrar séu virkir þátttakendur í námi barna sinna og þeirra álit skipti máli. Til að sjá hvað vel er gert og kanna hvaða hindranir eru í veginum var lögð spurningakönnun (n=114) fyrir foreldra barna með röskun á einhverfurófi á höfuðborgarsvæðinu.
  Markmiðið með rannsókninni var að kanna upplifun foreldra af greiningarferlinu, samstarfi, stuðningi og sérfræðiþjónustu við börn þeirra greind með röskun á einhverfurófi, í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Kannað var hvernig foreldrar meta samskipti milli sín og leikskóla, hvernig þeim er háttað og hvað foreldra telja mikilvægast í þeim efnum. Einnig var skoðað hvernig foreldrar upplifa stuðning í leikskólanum og hvaða aðstoð og sérfræðiþjónusta þeir telja að hafi hjálpað sér mest. Spurt var út í val á kennsluaðferðum og ástæður valsins. Að lokum var spurt um einstaklingsnámsskrárgerð og þátttöku foreldra í teymisvinnu með starfsfólki leikskólans og stoðþjónustu viðkomandi sveitarfélags.
  Rannsókn sem þessi hefur hagnýtt gildi fyrir fagaðila sem vilja auka skilning sinn á reynsluheimi foreldra einhverfra barna. Notuð var megindleg rannsóknaraðferð þar sem spurningalisti var sendur rafrænt til foreldra. Úrtakið var unnið í samráði við skólaskrifstofur allra bæjarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða markmiðsúrtak þar sem leitað er að þátttakendum sem má skilgreina sem afmarkaðan hóp sem býr yfir ákveðinni reynslu og þekkingu sem rannsóknin beinist að. Svarhlutfall í könnuninni var 62%, luku 72 af 114 foreldrum könnuninni.
  Helstu niðurstöður voru að snemmtæk íhlutun í leikskóla hefst hjá stórum hluta barna fyrir fullnaðargreiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Meirihluti foreldra einhverfra barna er ánægður með þá kennslu og stuðning sem börn þeirra fá í leikskólanum óháð þeirri kennsluaðferð sem beitt er. Marktæk tengsl voru milli kennsluaðferðar og hversu sáttir foreldrar voru við aðferðina en foreldrar sem eiga börn í atferlisþjálfun voru oftar mjög sáttir en foreldrar barna í skipulagðri kennslu voru oftar frekar sáttir (x²(2,N=58)=10,4, p=0,006). Unnið er í teymum með foreldrum í langflestum tilfella og er bæði ánægja með teymin, einstaklingsnámsskrár og framfarir barnanna. Marktæk tengsl voru á milli kennsluaðferðar og hversu mikil áhrif foreldrar telja sig hafa haft á val á aðferð (x²(2,N=55)=7,3, p=0,026).
  Stórt hlutfall foreldra vill fá meiri upplýsingar um þær kennsluaðferðir sem eru í boði innan síns sveitarfélags. Rúmlega þriðjungur foreldra hefur þurft að færa barnið sitt milli leikskóla eða hefur íhugað að gera það svo barnið fái þá þjónustu sem foreldrarnir telja að henti því best. Þó hefur aðeins helmingur foreldra eða færri sótt þau námskeið sem Greiningar- og ráðgjafarstöðin býður upp á. Góð samskipti og árangursríkt samstarfs var talið ómetanlegt. Einnig komu foreldrar margoft inn á hversu mikilvægt fagfólkið sjálft er, reynsla þess, þekking og viðmót þó áherslurnar væru ólíkar eftir starfssviðum fagfólksins.

Samþykkt: 
 • 9.9.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/26005


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
yfirlýsing_Eva_Sif_Jóhannsdóttir.JPG1.8 MBLokaðurYfirlýsingJPG
Lokaskil_Eva_Sif_Jóhannsdóttir_vor_2016.pdf1.59 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna