is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/26028

Titill: 
 • Orð af orði og skóli án aðgreiningar : starfendarannsókn
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Ritgerðin fjallar um rannsókn á eigin starfi í tengslum við innleiðingu þróunarverkefnisins Orð af orði og vinnu út frá menntastefnunni skóli án aðgreiningar. Rannsóknin var gerð á fyrri hluta skólaársins 2015–2016. Þátttakendur hennar voru auk mín umsjónarnemendur mínir í 2. bekk.
  Tilgangur rannsóknarinnar var að innleiða og festa í sessi í starfi mínu aðferðir þróunarverkefnisins og með þeim bæta kennsluhætti mína. Markmiðið var að nota aðferðirnar til að geta betur komið til móts við alla nemendur mína og gefa þeim verkfæri og tækifæri til að efla læsi sitt. Rannsóknarspurningin var: Hvernig get ég komið til móts við allan nemendahópinn og eflt læsi hans með aðferðum þróunar¬verkefnisins Orðs af orði og hugsjón skóla án aðgreiningar?
  Rannsóknin var starfendarannsókn þar sem ég rýndi í eigin kennslu og skoðaði hvernig breyttir starfshættir höfðu áhrif á mig sem kennara og á nemendur. Gögnum var safnað með rannsóknardagbók, tölvupóstum til leiðbeinanda, vettvangsathugunum, fundargerðum, nemendaviðtölum og ljósmyndum.
  Helstu niðurstöður voru að með því að innleiða og kenna eftir aðferðum Orðs af orði breyttust kennsluhættir mínir; ég varð sátt við þær aðferðir sem ég tileinkaði mér og áttaði mig á mikilvægi þess að kenna eftir markmiðum í stað námsbóka. Nemendur öðluðust verkfæri til að efla læsi sem þeir nýttu sér til að vinna með og skilja innihald texta. Í ljós kom hversu vel menntastefnan og þróunarverkefnið héldust í hendur og hve vel þessar aðferðir nýttust til að koma til móts við alla nemendur á þeirra forsendum.
  Starfendarannsóknin er liður í starfsþróun minni og að gera starf mitt sýnilegra. Niðurstöður hennar geta nýst öðrum kennurum sem hafa áhuga á að endurskoða sína eigin starfshætti og kennslufræðilegar hugmyndir. Þekking á gildi aðferða þróunarverkefnisins og menntastefnunnar til að koma til móts við alla nemendur og efla læsi þeirra getur jafnframt nýst öðrum kennurum í starfi.

Samþykkt: 
 • 9.9.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/26028


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Orð af orði og skóli án aðgreiningar Hrefna Ósk.pdf2.42 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlýsing Hrefna Ósk.pdf173.72 kBLokaðurYfirlýsingPDF