is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/26049

Titill: 
 • Íslenskt námsefni í stærðfræði borið saman við spurningar í PISA prófum
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Tilgangur þessarar ritgerðar er að kanna hversu mikil samsvörun er á milli PISA spurninga í stærðfræði og íslensks námsefnis fyrir unglingastig, með það að markmiði að skoða hvort eitthvað í námsefninu geti skýrt versnandi árangur íslenskra nemenda á PISA prófunum milli áranna 2003 og 2012.
  Til að skoða þetta voru stærðfræðispurningar PISA prófanna árin 2003 og 2012 bornar saman við námsefnið Almenn stærðfræði og Átta-tíu. PISA spurningum er skipt í fjóra flokka, stærðir (quantity), rými og lögun (space and shape), breytingar og tengsl (change and relationships) og óvissa og gögn (uncertainty and data). Í þessari ritgerð var ákveðið greina í aðra fjóra flokka sem eru: rúmfræði og mælingar, tölfræði og líkindi, tölur og reikningur og algebra. Skoðað var hvort hlutfall námsþáttanna fjögurra er svipað í prófunum og í námsefninu.
  Einnig var skoðað hversu mikil samsvörun var með opinberu dæmum PISA prófanna 2003 og 2012 og námsefninu. Dæmum prófanna var skipt upp í flokka eftir því hversu mikil líkindin voru. Dæmi prófsins 2003 voru borin saman við námsefnið Almenn stærðfræði en flestir nemendur sem tóku prófið 2003 höfðu notað það námsefni. Hins vegar voru dæmin úr prófinu 2012 borin saman við bæði námsefnið Átta-tíu og Almennu stærðfræðina en árið 2012 var ýmist annar bókaflokkurinn eða báðir kenndir í skólum landsins.
  Dæmi sem koma mjög vel og mjög illa út úr prófunum bæði árin voru skoðuð sérstaklega með tilliti til gerðar þeirra, þ.e. hvort þau voru fjölvalsdæmi, sett fram í skrefum, texti þeirra mjög langur og hvort þau kröfðust mikillar rökhugsunar.
  Að síðustu voru dæmi sem komu mjög vel og mjög illa út á Íslandi borin saman við niðurstöður frá hinum Norðurlöndunum og skoðað hvort munur er á frammistöðu íslenskra nemenda og nemenda frá hinum löndunum.
  Helstu niðurstöður eru þær að hlutfall námsþáttanna fjögurra er nokkuð ólíkt eftir því hvort um er að ræða námsefnið eða dæmin í PISA. Í námsefninu er miklu meiri áhersla á dæmi í flokkunum algebra og tölur og reikningur en á prófunum, en því er öfugt farið með flokkinn tölfræði og líkindi þar sem áherslan í þeim tilfellum er mun meiri í prófunum en í námsefninu. Flokkurinn rúmfræði og mælingar hefur svipað vægi á prófunum og í námsefninu Almenn stærðfræði en vægið er minna í námsefninu Átta-tíu.
  Þegar skoðuð er gerð dæma sem koma illa út hjá íslenskum nemendum í PISA prófunum má segja að þau sem krefjast rökstuðnings og rökhugsunar komi illa út bæði árin en dæmi sem eru sett fram í skrefum komu illa út árið 2012.
  Við samanburð á dæmagerðunum i námsefninu og opinberu spurningum prófanna kemur fram að dæmi í námsefninu Átta-tíu eru mun líkari próf¬dæmunum en dæmi í námsefninu Almenn stærðfræði. Þrátt fyrir það er árangur íslenskra nemenda árið 2012 mun lakari en árið 2003 þegar ekki var enn byrjað að kenna námsefnið Átta-tíu.
  Niðurstöður úr PISA dæmum sem komu mjög vel og mjög illa út á Íslandi voru bornar saman við niðurstöður þeirra dæma á hinum Norðurlöndunum. Við þann samanburð kom í ljós að ekki er mjög mikill munur á getu nemenda milli landanna í flestum dæmunum. Þau dæmi sem koma illa út á Íslandi gera það líka á hinum Norðurlöndunum.

Samþykkt: 
 • 9.9.2016
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/26049


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sniðmát meistaraverkefna (30.5.16).pdf1.3 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
2016_03_skemman_yfirlysing_lokaverkefni_29.03.16.pdf36.4 kBLokaðurYfirlýsingPDF